Virkjunarsamningur undirritaður

Undirritaður hefur verið kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfyrirtækja og Landsvirkjunar annars vegar, og Alþýðusambands Íslands, Starfsgreinasambands Íslands, Samiðnar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar, um kaup og kjör við virkjunarframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar. Um er að ræða framlengingu síðastgildandi samnings aðila, en samningsaðilar eru sammála um að vegna breyttra aðstæðna á raforkumarkaði, þ.e. aukinnar samkeppni í framleiðslu raforku, séu ekki forsendur fyrir framlengingu samnings þessa eftir að hann fellur úr gildi.

 

Samningurinn gildir frá 19. apríl 2004 og líkt og fyrri samningar sem SA hafa gert að undanförnu gildir hann til ársloka ársins 2007. Breytingar á lífeyrisgreiðslum og almennar launahækkanir eru einnig þær sömu og í öðrum samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu.

 

Nýir launaflokkar fyrir reynda virkjunarmenn

Inn koma nýir launaflokkar fyrir vinnuvélastjórnendur og iðnaðarmenn með allnokkra starfsreynslu. Launataxti þessara vinnuvélstjóra er kr. 129.857 og iðnaðarmanna kr. 176.856 við upphaf samningstíma. Heimilt er að haga samsetningu launa með öðrum hætti en samningurinn kveður á um að því tilskildu að slíkir samningar standist lágmarksákvæði virkjunarsamningsins.

 

Sjá samninginn (pdf-skjal).