Vinnumarkaður næstu áratuga

Eldra fólki mun fjölga hlutfallslega á íslenskum vinnumarkaði á næstu áratugum og ungmennum mun að sama skapi fækka. Það hefur að líkindum í för með sér að hér á landi mun verða viðvarandi vinnuaflsskortur og innflytjendum mun fjölga. Þetta kom m.a. fram í erindi Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, á fundi um málefni miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Hannes sagði breytta aldurssamsetningu snerta nánast öll svið efnahags- og þjóðmála og kalla á nýja hugsun og nýja nálgun stjórnvalda.

 

Alþjóðlegt viðfangsefni

Sú þróun sem við blasir á Íslandi er í raun alþjóðlegt viðfangsefni. Íslendingar standa  frammi fyrir því að á næstu áratugum mun Íslendingum á vinnumarkaði fækka hlutfallslega en þeim sem komnir verða á efri ár mun fjölga mjög. Árið 2050 verður t.d. rúmur fjórðungur íbúa landsins 65 ára og eldri samanborið við tíunda hvern íbúa nú. Áttræðum og eldri mun fjölga úr 9.600 í um 45 þúsund á þessum tíma.

 

Miklar breytingar á íslenskum vinnumarkaði

Þetta mun hafa mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað. Árið 2050 stefnir til dæmis í að tveir Íslendingar verði á vinnualdri (16-64 ára) fyrir hvern ellilífeyrisþega (65 ára og eldri). Árið 2027 verður hlutfallið þrír á móti einum en í dag eru sex Íslendingar á vinnualdri fyrir hvern ellilífeyrisþega. Breytingar af völdum aldurssamsetningar þjóðarinnar verða tilfinnanlegar eftir fáeina áratugi en á meðfylgjandi mynd má sjá hvert stefnir.

 

Smellið til að sjá stærri útgáfu! 

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

 

Aukin atvinnuþátttaka eldra fólks og kvenna er þáttur í lausn vandans sem við blasir í mörgum löndum. Atvinnuþátttaka eldra fólks og kvenna er hins vegar þegar mjög mikil hér á landi. Hlutastörf sem henta eldra fólki eru hins vegar mörg á Íslandi sem ætti að geta stuðlað að hárri atvinnuþátttöku þessa hóps. Hannes benti í erindi sínu á niðurstöður könnunar SA meðal aðildarfyrirtækja sinna árið 2004. Niðurstöður hennar sýndu að starfsfólk 50 ára og eldra var sjaldnar frá vegna veikinda en þeir yngri. Vinnuhraði þeirra var sá sami og annarra og eldri starfsmennirnir voru jafnframt mun jákvæðari í garð vinnunnar en yngra fólk. Könnun SA frá árinu 2002 sýndi jafnframt að 42% atvinnurekenda töldu eldra starfsfólk verðmætari starfskrafta en þá sem eru yngri. Sagði Hannes að mikilvægt væri að hvetja eldra fólk til frekari atvinnuþátttöku og brýnt væri að fjarlægja allar hindranir fyrir atvinnuþátttöku eldri starfsmanna og atvinnulífið leitist við að sníða störf að þörfum þeirra sem eldri eru.

 

Langtímahugsun nauðsynleg

Hugsa verður til langs tíma þegar ákvarðanir eru teknar og mörkuð stefna í málefnum þeirra sem nú nálgast eftirlaunaaldurinn. Þær ákvarðanir verða að miðast við lausnir á viðfangsefnum sem blasa við en mega ekki skapa sívaxandi vanda eftir því sem öldruðum fjölgar. Hannes benti á að vegna sterkra stöðu íslenskra lífeyrissjóða væri vandi Íslendinga vegna hækkandi meðalaldurs minni en flestra annarra þjóða, en þó gætu skuldbindingar sjóðanna aukist um 30% vegna lengingar meðalævi. Ljóst sé að stjórnmálamenn þurfi að vera tilbúnir að taka umdeildar ákvarðanir til að mæta þeim áskorunum sem framundan eru. Trauðlega verði hægt að hækka skatta vinnandi fólks vegna aukinna opinberra útgjalda vegna fjölgunar aldraðra þar sem það dragi úr hvata fólks til að vinna en það megi alls ekki gerast. Því fyrr sem hugað verði að lausn þeirra fjölmörgu verkefna sem blasi við því viðráðanlegri verði þau.  

 

Sjá nánar: Glærur Hannesar G. Sigurðssonar