Vímuefnapróf og öryggi á vinnustað

Það getur ekki verið markmiðið að sjónarmið varðandi persónufrelsi einstakra starfsmanna vegi þyngra en heilbrigði og öryggi annarra starfsmanna. Tilgangur fíkniefnaprófa er fyrst og fremst að standa vörð um öryggi starfsmanna en ekki áhugi fyrirtækisins á persónulegum högum manna.

 

 

Nýverið var umræða í fjölmiðlum um áskilnað fyrirtækja við ráðningu um að starfsmenn geti þurft að gangast undir fíkniefnapróf. Sú umfjöllun snerist nær eingöngu um að með þessu væru fyrirtæki að ganga of nærri persónufrelsi manna og að taka sér vald til að taka lífsýni úr starfsmönnum sínum. 

 

Ástæður þess að fyrirtæki telja nauðsynlegt að geta látið starfsmenn fara í fíkniefnapróf, ef tilefni er talið til þess, voru ekki ræddar né minnst á skyldur fyrirtækja til að búa starfsmönnum sínum öruggt starfsumhverfi. Ekki var heldur talað um að fyrirtæki eða umbjóðendur þeirra geta haft brýna hagsmuni af að starfsmenn þeirra noti ekki vímuefni, t.d. ef um er að ræða þjónustu við börn og ungmenni.

 

Varnaðaráhrif

Það er viðurkennd regla á vinnumarkaði að starfsmönnum er bannað að vera undir áhrifum áfengis eða vímuefna á vinnustað. Sé maður ölvaður er hann tafarlaust sendur heim. Vandinn er að flest fíkniefni eru þeirrar gerðar að neysla þeirra er ekki augljós. Vinnuveitandinn getur  sjaldnast vitað hvort starfsmaður er undir áhrifum fíkniefna án þess að honum verði gert að gangast undir fíkniefnapróf. Varnaðaráhrifin skipta einnig verulegu máli. Vitneskja um að slíkum prófum kunni að vera beitt hefur ótvíræð áhrif. 

 

Sé starfsmaður undir áhrifum vímuefna getur hann stefnt lífi og limum annarra starfsmanna og jafnvel viðskiptavina eða vegfarenda í bráða hættu. Finnst okkur eðlilegt að fyrirtæki geti ekki, ef tilefni er til, gengið úr skugga um það að starfsmenn sem eru að fást við háspennustraum eða fljótandi ál séu alsgáðir? Hver er ábyrgð fyrirtækisins við slys ef ekkert hefur verið að gert?

 

Tilgangurinn að standa vörð um öryggi

Öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi er markmið sem bæði stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins setja á oddinn. Það verður að ætlast til þess að yfirlýsingar stofnana á borð við Vinnueftirlitið byggi á markaðri stefnu um málefni eins og það sem hér er til umfjöllunar. Það getur ekki verið markmiðið að sjónarmið varðandi persónufrelsi einstakra starfsmanna vegi þyngra en heilbrigði og öryggi annarra starfsmanna. Tilgangur fíkniefnaprófa er fyrst og fremst að standa vörð um öryggi starfsmanna en ekki áhugi fyrirtækisins á persónulegum högum manna. Hitt er annað mál að fara þarf með gætni við framkvæmd prófa af þessu tagi, fylgja reglum um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga og eyða upplýsinum um niðurstöður prófa þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær.