Verðmætamat í raforkuflutningskerfinu byggist á arðsemi

Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins í nefnd iðnaðarráðherra um fyrirkomulag flutnings raforku skrifaði undir álit meirihluta nefndarinnar en lagði jafnframt fram bókun við álitið. Í bókuninni kemur m.a. fram að SA telja verðmat á flutnings-virkjum sem keypt eða leigð verða af flutningsfyrirtækinu vera atriði sem skipti sköpum um það hvort sæmileg sátt skapist um nýtt fyrirkomulag við flutning og dreifingu raforku. Þá eigi mat á verðmæti eigna í atvinnurekstri sem ætlaðar eru til tekjuöflunar að byggjast á arðsemi þeirra en ekki stofnkostnaði. SA telja því að í sumum tilvikum eigi það við að eignir gangi inn í flutningsfyrirtækið án þess að fyrir þær komi endurgjald.

 

Þá telja SA það þjóðhagslega óskilvirkt að gera minni arðsemiskröfu til fjármagns í þessum iðnaði en í öðrum atvinnurekstri. Opinber verðlagning sem miðar við 6% arðsemi að hámarki er of lágt þak miðað við arðsemiskröfur almennt. Ef þakið verður ákveðið svona lágt mun löggjafinn liggja undir þrýstingi um að hækka þetta þak á komandi árum.

 

Loks telja SA eðlilegt að opinber stuðningur við tiltekna raforkunotendur eigi að vera eins gegnsær og unnt er en eigi ekki að fela í raforkuverðinu.

 

Sjá bókun fulltrúa SA.

 

Tillögur nefndarinnar

Iðnaðarráðherra skipaði nefnd í samræmi við bráðabirgðaákvæði VII við raforkulög nr. 65/2003, sem ætlað var að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku, þ.m.t. um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess og kerfisstjórnun skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá var nefndinni og falið að móta tillögur um það með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna flutnings og dreifingar raforku. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins í nefndinni var Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna. Hannes skrifaði undir tillögur meirihluta nefndarinnar en lagði jafnframt fram bókun við hana, líkt og fram kemur hér að framan.

 

Tillögur meirihluta nefndarinnar eru m.a. þær að:

 

- Umfang flutningskerfisins miðist við tiltekna afhendingarstaði, sem m.a. eru miðaðir við að flutningskerfið nái til þeirra háspennulína sem nú eru á 66 kV spennu eða meira. Auk þess verði allar þær dreifiveitur sem nú starfa í landinu tengdar flutningskerfinu. Þó er ekki gert ráð fyrir að flutningskerfið nái inn fyrir mörk þéttbýlis.

 

- Við gildistöku laganna verði stofnað hlutafélag í eigu ríkisins. Það er annars vegar gert til að tryggja að fyrir hendi sé lögaðili þegar eignir sem leggjast til flutningskerfisins eru metnar og hins vegar til að annast rekstur flutningsvirkja þar til endanlegt mat liggur fyrir. Þegar matið liggur fyrir munu þeir sem leggja eignir til félagsins taka við rekstri þess.

Sama gjald verði greitt til flutningsfyrirtækisins fyrir úttekt á raforku frá öllum afhendingarpunktum.

 

- Við ákvörðun Orkustofnunar um tekjumörk flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna vegna flutnings til almenningsveitna verði miðað við helming af arðsemi markaðsávöxtunar óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til fimm ára eða sambærilegra verðbréfa. Arðsemisviðmiðunin hækki á fimm ára tímabili í þá ávöxtun sem kveðið er á um í gildandi lögum. Með þessu er stefnt að því að leyfa fyrirtækjunum að njóta hluta þeirrar hagræðingar sem þau eiga að ná innan þess tekjuramma sem þeim er settur án þess að það leiði til hækkunar á gjaldi til flutnings og dreifingar raforku.