Veldur afgangur af ríkisrekstri auknum ríkisútgjöldum?

Öll undangengin ár hafa fjárlög íslenska ríkisins gert ráð fyrir myndarlegum afgangi.  Raunin hefur oftast orðið önnur. Samanburður á rekstrarafgangi fjárlaga og ríkisreikningi síðustu fimm ár sýnir að halli var þrjú ár og að hin tvö var afgangurinn mun minni en að var stefnt. Samtals var stefnt að 85 milljarða króna afgangi á þessum fimm árum en í reynd varð halli sem nam tæpum átta milljörðum króna. Þetta hefur haft í för með sér að aðhald ríkisfjármála hefur orðið minna en að var stefnt og þörf var á til þess að draga úr þenslu í efnahagslífinu sem ríkjandi var í upphafi og lok þessa tímabils. Þessu til viðbótar hafa sveitarfélögin verið rekin með halla öll þessi ár þannig að opinberu fjármálin hafa verið þensluhvetjandi. Halli sveitarfélaganna jókst verulega í fyrra og nam rúmum 10 milljörðum króna sem er 1,2% af landsframleiðslu.

 

Rekstrarafkoma ríkissjóðs skv.

fjárlögum og ríkisreikningi

 

 Fjárlög,  

mia. kr.

Reikningur,

mia. kr.

2000

2001

2002

2003

2004

16,7

33,8

18,5

9,4

6,7

- 4,3

8,7

- 8,1

- 6,1

2,0

Samtals

85,1

- 7,8

 

Kenningar um að afgangur valdi taumleysi
Þeirri kenningu hefur verið haldið á lofti að afgangur af rekstri ríkissjóðs geti stuðlað að auknum ríkisgjöldum. Afgangurinn sem slíkur valdi því að viðspyrna þingmanna og fjármálaráðuneytis gegn óskum um aukin útgjöld til málaflokka verði minni en ef jafnvægi er milli tekna og gjalda eða halli. Sama gildi við gerð kjarasamninga ríkisstarfsmanna, þ.e. að þeir verði kostnaðarsamari en ella þar sem af nógu sé að taka ef afgangur er ríflegur.

 

Eitthvað kann að vera til í þessari kenningu en hún felur þó í sér ákveðna vantrú á því að unnt sé að beita ríkisfjármálum við efnahagsstjórn; vantrú á því að unnt sé að framfylgja markvissri stefnu um að takmarka hlut hins opinbera í þjóðarbúskapnum og vantrú á því að opinberi geirinn fylgi þeirri launastefnu sem einkageirinn markar. 

 

Minnkandi opinber útgjöld á Norðurlöndum
Í ljósi þessarar kenningar er áhugavert að kanna hvort jákvætt samband sé á milli afgangs í opinberum rekstri og aukningar opinberra útgjalda í nágrannalöndunum. Þótt útgjöld hins opinbera séu hvað hæst í heiminum á Norðurlöndunum þá hafa þau heldur farið minnkandi í hlutfalli við landsframleiðslu á undanförnum átatug. Ísland er þar undantekning þar sem hlutur ríkisútgjaldanna hefur aukist verulega og var orðinn hærri en í Noregi á síðasta ári.

 

Útgjöld hins opinbera á Norðurlöndum

í % af landsframleiðslu

 

 

 1997

2004 

Breyting 

Danmörk

Finnland

Ísland

Noregur

Svíþjóð

58,0

56,4

42,0

47,2

62,9

56,3

50,7

47,6

46,6

57,1

- 1,7

- 5,7

5,7

- 0,7

- 5,8

Heimild; OECD

 

Á Norðurlöndunum að Íslandi undanskildu hefur verið afgangur af rekstri ríkissjóða landanna öll undangengin ár. Í öllum ríkjunum var mjög mikill afgangur á árinu 2000, en hann hefur farið minnkandi síðan, þótt enn sé hann verulegur í öllum nágrannalöndum okkar. Á Íslandi hefur afgangurinn verið minnstur og eina dæmið um hallarekstur á tímabilinu er hér á landi. Þessum tölum OECD sem byggðar eru á þjóðhagsreikningum Hagstofunnar ber raunar ekki nákvæmlega saman við tölur skv. ríkisreikningi en þær ættu hins vegar að vera samanburðarhæfar milli landanna.

 

2005 okt Ríkisútgjöld

 

Gjöld minnka þrátt fyrir mikinn afgang
Hagtölur um umfang hins opinbera á Norðurlöndum og afgang af rekstri ríkissjóða landanna sýna að ekki er jákvætt samband á milli afgangs af rekstri ríkissjóða og útgjaldaaukingar hins opinbera. Samanburðurinn sýnir þvert á móti að afgangur hefur verið verulegur á Norðurlöndunum fjórum, að Íslandi frátöldu, á undanförnum árum, en að dregið hefur úr gjöldum í hlutfalli við landsframleiðslu á sama tímabili. 

 

Undantekningin er Ísland þar sem gjöldin fóru vaxandi á tímabilinu þrátt fyrir að afgangur væri minnstur í löndunum fimm á fyrri hluta tímabilsins og enginn á síðustu árunum. Kenningin um jákvætt samband milli afgangs af ríkisrekstri og gjaldaaukningar á sér því enga stoð í reynslu Norðurlandanna undanfarinn áratug þar sem raunin hefur verið þveröfug. Opinber útgjöld hafa dregist saman á undanförnum árum á öllum Norðurlöndunum, að Íslandi frátöldu, í hlutfalli við landsframleiðslu þrátt fyrir að ríkissjóðir landanna hafi verið reknir með afgangi á sama tíma, og í sumum tilfellum með gríðarlegum afgangi.