Úrtaksskoðanir hjá fyrirtækjum

Umbuna ber fyrirtækjum fyrir virkt innra eftirlit og rekstur viðurkenndra gæðastjórnunarkerfa, t.d. í formi minna utanaðkomandi eftirlits. Löggiltum rafverktökum ber að reka slík kerfi, en sæta jafnframt úrtaksskoðunum löggiltra skoðunar-stofa. Skoðunum fer fækkandi komi verktaki ítrekað vel út úr þeim. Þarna er dæmi um fyrirkomulag sem viðhafa mætti víðar. Varla getur t.d. talist nauðsynlegt að viðhafa árlegt utanað-komandi eftirlit með öllum starfsstöðvum fyrirtækja þegar þær eru allar reknar skv. sömu handbókinni, sbr. bensínstöðvar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í væntanlegri skýrslu SA um eftirlit með atvinnustarfsemi, þar sem tillögur eru settar fram til úrbóta.

 

Rafmagnsöryggiseftirlit: gott fordæmi

Miklar breytingar hafa orðið á eftirlitsumhverfi með starfsemi löggiltra rafverktaka undanfarinn áratug. Í stað alskoðana eftirlitsmanna Rafmagnsveitna ríkisins framkvæma faggiltar skoðunarstofur nú úrtaksskoðanir í umboði Löggildingarstofu, þar sem skoðunum fer fækkandi komi verktaki ítrekað vel út úr skoðunum. Jafnframt er gerð krafa um að löggiltir rafverktakar komi sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi, sem tekin eru út og skoðuð af faggiltum skoðunarstofum í umboði Löggildingar-stofu, í þeim tilgangi að tryggja að þau standist kröfur um vandaða vinnu og öryggi búnaðar. Ráðherraskipaður vinnuhópur mat það svo árið 1999 að með breyttu fyrirkomulagi hefði tekist að lækka beinan kostnað við rafmagnseftirlit verulega, eða úr um 190-250 milljónum króna á ári í um 110-130 milljónir (á þávirði). Skoðunarstofurnar vinna samkvæmt skilgreindum verklagsreglum, sem tryggir samræmt eftirlit um land allt, en áður voru brögð á því að talsverður munur væri á framkvæmdinni milli landshluta, jafnvel milli einstakra eftirlitsmanna.

 

Fyrirtæki með margar starfsstöðvar

Úrtaksskoðanir af þessu tagi eru dæmi um leiðir sem bent er á til úrbóta í væntanlegri skýrslu Samtaka atvinnulífsins um eftirlit með atvinnustarfsemi. Áhersla er lögð á að fyrirtækjum sé umbunað fyrir virkt eigið innra eftirlit og rekstur viður-kenndra gæðastjórnunarkerfa, í formi minna utanaðkomandi eftirlits með starfsemi þeirra. Sé utanaðkomandi eftirlit talið nauðsynlegt ber ávallt að kanna kosti þess að bjóða framkvæmdina út á markaði, m.a. í því skyni að tryggja samræmda framkvæmd á grundvelli ítarlegra skoðunarhandbóka.

 

Úrtaksskoðanir geta verið skynsamleg leið í þessum efnum, t.d. þegar um er að ræða fyrirtæki með margar starfsstöðvar. Bensínstöðvar eru t.d. reknar um land allt á grundvelli samræmdra handbóka. Í slíku tilfelli getur varla talist nauðsynlegt að viðhafa margþætt og árlegt utanaðkomandi eftirlit með öllum starfsstöðvum á hverju ári líkt og nú er gert, en hefðbundin bensínstöð með verslun þarf fjórar gerðir starfsleyfa hjá heilbrigðisnefnd. Beinn kostnaður vegna utanaðkomandi eftirlits getur numið allt að kr. 400.000 á starfsstöð. SA leggja til að leyfin verði sameinuð í eitt leyfi fyrir hverja starfsstöð, jafnvel eitt leyfi fyrir hvert fyrirtæki sem rekur fleiri starfsstöðvar.

 

Eftirlit með atvinnustarfsemi – tillögur til úrbóta

Skýrsla SA um eftirlit með atvinnustarfsemi og tillögur til úrbóta verður kynnt á aðalfundi samtakanna 4. maí nk. Þar verður m.a. fjallað um eftirlit með byggingariðnaði, veitingahúsum, bensínstöðvum, fjármálafyrirtækjum og fiskeldisfyrirtækjum, um matvælaeftirlit og um skipaskoðun.