Úrelt séríslensk skattheimta

Ef vörugjald yrði afnumið á Íslandi myndi verðlag hér verða sambærilegra við það sem þekkist í nágrannalöndunum og afnám vörugjalds á heimilistæki og byggingavörur myndi stuðla sérstaklega að bættum hag lág- og millitekjufólks. Sérstakt vörugjald á þessar vörur þekkist ekki meðal þeirra þjóða sem við Íslendingar berum okkur helst saman við. Vörugjaldskerfið er flókið og handahófskennt þar sem engin skiljanleg regla virðist vera fyrir hendi um það hvaða vörur eru skattlagðar og hvaða vörur ekki. Grill sem ristar brauð lárétt ber t.d. vörugjald en hefðbundin brauðrist sem ristar brauð lóðrétt er undanþegin gjaldinu. Algengar vörur á heimilum landsmanna eru 13-20% dýrari vegna vörugjaldsins og er niðurfelling þess orðin löngu tímabær. Skatttekjur ríkissjóðs af vörugjaldi á þessu ári eru áætlaðar tæplega fjórir milljarðar króna sem svarar til rúmlega 1% af tekjum ríkissjóðs. Vísitala byggingakostnaðar er áætluð 0,6% hærri en ella vegna vörugjaldsins og vísitala neysluverðs 0,24%.

 

Endurskoðað á kjörtímabilinu

Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman greinargerð um uppruna og áhrif vörugjalds á Íslandi. Þar kemur m.a. fram að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segi að kerfi óbeinna skatta, svo sem vörugjalds og virðisaukaskatts, verði endurskoðað á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin hyggist einnig vinna að endurskoðun á skattkerfinu til þess að bæta hag lág- og millitekjufólks. Niðurfelling vörugjalds myndi gagnast vel til þess að ná því markmiði.

 

Ósamræmi og handahóf

Svo merkilega vill til að vörugjaldafrumskógurinn stækkaði verulega samhliða lögfestingu EES-samningsins en á síðari hluta tíunda áratugarins var hann grisjaður nokkrum sinnum með handahófskenndum hætti. Eftir síðustu breytingu á lögunum 1. mars síðastliðinn skiptist vörugjaldið í meginatriðum í þrjá flokka, 15%, 20% og 25%. Flokkunum fækkaði við þessa breytingu um einn með þeirri undantekningu að vörugjald í fjórða flokki á sykur og sælgæti fékk að lifa áfram. Þær vörur sem bera 15% vörugjald eru einkum byggingavörur og búnaður í baðherbergjum. Í 20% flokknum eru helstu heimilistæki í eldhús og þvottahús og í 25% flokknum eru m.a. sjónvörp, DVD-spilarar, tónlistarspilarar (s.s. iPod), geislaspilarar og önnur raftæki.


Dæmi um vörur sem bera vörugjald

 

15% vörugjald

20% vörugjald

25% vörugjald

234 tollnúmer

46 tollnúmer

55 tollnúmer

Baðker, vaskar, salerni, hreinl.vörur, gólfefni, flísar, gólfklæðning, mottur, gólfteppi, gólfdúkur, steinar, hljóðeinangrun- arplötur, veggfóður, þiljur, gipsplötur, þakpappi, einangraður vír, ljós, lampar, ljósleiðarar, kvikm.vélar, bílavarahlutir.

Eldavélar, örbylgjuofnar,

mínútugrill, vöfflujárn, kæli- og frystiskápar, uppþvottavélar, þvottavélar, þurrkarar, sláttuvélar, bílavarahlutir, sjálfsalar.

Sjónvarpstæki, útvarpstæki, myndflutningstæki, hljómflutningstæki

 

Handahóf virðist ráða því hvort tilteknar vörur beri vörugjald eða ekki. Hér að ofan var bent á dæmi af grilli og brauðrist, en einnig má nefna vöfflujárn sem ber vörugjald en pönnukökupanna ekki, gipsplötur bera vörugjald en spónaplötur ekki, sjónvörp bera vörugjald en tölvur sem hægt er að horfa á sjónvarpsdagskrána í ekki. Þá bera tónlistarspilarar á borð við iPod vörugjald en ef tónlistarspilarinn er hluti af farsíma þá er vörugjaldinu sleppt! Það kerfi vörugjalda sem Íslendingar búa við mismunar vörutegundum og hefur áhrif á val neytenda. Markaðnum er stýrt inn á brautir sem hann hefði ekki farið án opinberrar íhlutunar.

 

Tvísköttun vegna vörugjalds

Innflytjendum ber að leggja vörugjald við innflutningsverð sem síðan myndar stofn fyrir virðisaukaskatt. Tvísköttun er því hluti kerfisins þar sem virðisaukaskattur leggst á vörugjaldið. Sambærileg skattlagning þeirra vörutegunda sem vörugjaldið leggst á þekkist ekki í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Vörugjald (e. excise tax) í nálægum löndum er bundið við tiltölulega fáa vöruflokka á borð við olíuvörur, tóbak, alkóhól og sykur, þar sem hugsunin að baki skattlagninguninni er sú að takmarka notkun og mæta neikvæðum ytri áhrifum þessara vara. Hérlendis teygjast angar vörugjaldsins hins vegar í allar áttir en rétt er að undirstrika það að vörugjald er ekki sérlega mikilvægur tekjustofn fyrir ríkissjóð og hefur mikilvægi hans farið minnkandi. Því er orðið tímabært að fella niður þennan frumstæða skatt sem er verulega íþyngjandi fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur.

 

Sjá nánar: Greinargerð SA um vörugjald