Upplýsingum safnað um rannsóknir og nýsköpun í fyrirtækjum

Rannís er um þessar mundir að afla gagna um rannsókna- og þróunarstarf hjá fyrirtækjum á Íslandi. Þetta er liður í þeirri starfsemi stofnunarinnar að greina stöðu, umfang og þróun rannsókna, þróunar og nýsköpunar á Íslandi. Samtök atvinnulífsins hafa mótað áherslur sínar um rannsóknir og nýsköpun (sem finna má hér) en til að virk og gagnleg umræða geti átt sér stað um stöðu og þróun nýsköpunar þurfa fyrirtæki í landinu að leggja sitt af mörkum.

 

Samtökin hvetja fyrirtækin til að taka vel í málaleitan Rannís og láta þeim í té umbeðnar upplýsingar. Rannís hefur aflað gagna af þessu taki frá 1970 en til eru í vörslu Rannís enn eldri gögn um þessi mál. Það er forsenda allrar stefnumótunar og þróunar í landsmálum að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um stöðu mála. Það er einmitt markmið Rannís að vinna að því, til gagns fyrir atvinnulíf í landinu og stjórnvöld að hægt sé að byggja upp sem best umhverfi rannsókna og þróunar.

 

Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) er stofnun sem heyrir undir menntamálaráðuneytið og veitir íslensku vísinda- og tæknisamfélagi aðstoð til framþróunar á innlendum og erlendum vettvangi, er samstarfsvettvangur til undirbúnings og framkvæmdar opinberrar vísinda- og tæknistefnu og gerir áhrif rannsókna á þjóðarhag og hagvöxt sýnilegan. Nánari upplýsingar um gagnaöflunina er að finna á vef stofnunarinnar.