Uppbygging atvinnulífs á Vesturlandi rædd á morgun

Uppbygging atvinnulífs á Vesturlandi verður rædd á stefnumóti í Menntaskóla Borgarfjarðar á morgun, laugardaginn 30. janúar. Raunar verða öll helstu mál sem snerta framtíð samfélagsins til umræðu en markmiðið er að fá sem flesta til að leggja sitt af mörkum og hafa mótandi áhrif á samfélagið.

 

Öllum er velkomið að taka þátt en fjölbreyttur hópur fólks mun flytja erindi auk þess sem ólík málefni verða rædd í umræðuhópum.

 

Framsöguerindi flytja Ágúst Einarsson rektor Háskólans á Bifröst, Svafa Grönfeldt fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, Dögg Mósesdóttir framkvæmdastjóri Northern Wave kvikmyndahátíðar í Grundarfirði, Sigríður  Margrét Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Landnámsseturs í Borgarnesi og Ingvar E. Sigurðsson leikari.

 

Ráðstefnustjóri er Þórólfur Árnason. Þingið er haldið í Menntaskóla Borgarfjarðar og hefst kl. 10.00. Húsið opnar kl. 09.00 og boðið verður upp á léttan morgunverð en þinghaldi lýkur kl. 15:30.

 

Samtök atvinnulífsins eru meðal fjölmargra aðila sem styðja Stefnumót 2010: Lykill að framtíð í Borgarbyggð.

 

Nánari upplýsingar og dagskrá á vef Borgarbyggðar