Uppboð á tollkvótum halda uppi vöruverði

Frumvarp landbúnaðarráðherra var samþykkt á Alþingi á lokadegi febrúarmánaðar en samkvæmt því eru auknar heimildir landbúnaðarráðherra á innflutningi á tollfrjálsum landbúnaðarafurðum vegna nýlegra samninga við ESB um aukinn innflutning landbúnaðarafurða án magn- og verðtolla.

 

Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu skiluðu sameiginlegri umsögn til Alþingis um frumvarpið, en þar kemur fram að baksvið þeirra breytinga sem í frumvarpinu felist sé almenn óánægja með hátt matvælaverð á Íslandi. Bent er á að í skýrslu Hagsofustjóra frá því í júlí 2006 hafi komið fram að háir tollar á innfluttar landbúnaðarvörur leiki þar megin hlutverk. Fjölmargar aðrar skýrslur hafi leitt til sömu niðurstöðu þó ýmsar aðrar skýringar komi þar til. Í umsögn samtakanna kemur fram að lækkun virðisaukaskatts á matvælum og veitingaþjónustu og afnám vörugjalda á flest matvæli muni skila verðlagsáhrifum sem svarar 12-13% lækkun matvælaverðs. Því sé ljóst að lækkun tollverndar landbúnaðarafurða þurfi að skila verulegum verðlækkunum til þess að markmið ríkisstjórnarinnar um 16% lækkun matvælaverðs náist, en í þeirri tölu eru áhrif lækkunar veitingaþjónustu meðtalin.

 

Óhagkvæmt fyrirkomulag

Landbúnaðarráðuneytið hefur haft þá framkvæmd á úthlutun tollkvóta að bjóða þá upp en það fyrirkomulag hefur sömu áhrif og magntollar, þ.e. heldur uppi verði innanlands. SA og SVÞ lögðu því til að í stað uppboðsleiðar yrði tollkvótum úthlutað endurgjaldslaust, þó þannig áð óheimilt væri að framselja þá. Jafnframt er bent á að samkvæmt áliti fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs vegna gjalda fyrir tollkvóta. Markmið með stækkun tollkvótanna er hins vegar lækkun matvælaverðs en ekki auknar tekjur ríkissjós og því mikilvægt að uppboð á tollkvótum verði lagt af.

 

Sjá nánar umsögn SA og SVÞ