Umhverfisvænar vélar draga úr útblæstri hjá Samskipum

Fundaröð Samtaka atvinnulífsins um atvinnulíf og umhverfi er hafin. Fyrsta umræðuefnið var útblástur vegna flutninga á sjó og landi. Kristján Ólafsson, deildarstjóri hjá Samskipum flutti þar m.a. erindi, en hann fjallaði um umhverfismál og útblástur lofttegunda frá skipum ásamt því að segja frá hvernig málum væri háttað hjá Samskipum. Lýsti hann því hvernig Samskip hafa unnið að því að bæta brennslu í skipsvélum til að minnka útlosun skaðlegra efna, nýta betra eldsneyti og lágmarka almennt mengunaráhættu í siglingum.

 

Atvinnulíf og umhverfi - 1. fundur

 

Umhverfisvænar vélar

Í byrjun árs 2005 tóku Samskip tvö ný gámaskip í notkun sem smíðuð voru í Þýskalandi. Skipin eru búin mjög hagkvæmum og umhverfisvænum vélum frá MAN en Kristján sagði að það hefði ráðið úrslitum útgerðarinnar við valið á vélunum hversu neyslugrannar þær væru. Skipin eru í áætlunarsiglingum milli Íslands og Evrópu og á þær er notuð olía með brennisteinsinnihaldi undir 1,5% en það er dýrara en eldsneyti sem er með hærra brennisteinsinnihaldi og er víða notað. Hámark brennisteinsinnihalds í eldsneyti er 4,5% samkvæmt ISO staðli. Lækkun á útblæstri frá nýju vélum MAN miðað við fyrri vélar er umtalsverð og sést vel á meðfylgjandi mynd úr erindi Kristjáns:

 

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu:

Samskip - minnkun útblásturs 1

 

Þróunarverkefni með MAN

Stjórnendur Samskipa ætla þó ekki að láta staðar numið því Samskip vinna nú að þróunarverkefni með MAN og hafa til prófunar í skipum sínum ýmsa vélarhluta og búnað s.s. eldsneytisloka og dælur og einnig afgasblásara sem er ætlað að minnka hávaða, auka virkni, lækka viðhald og auka afköst, ásamt því að blanda lofti betur inn á vélarnar til að brennslan verði sem best. Allt miðar þetta að því að búa til enn betri vélar, að auka nýtni og gæði brennslu til að lágmarka losun óæskilegra efna út í andrúmsloftið.

 

Kynningu Kristjáns má nálgast hér (PPT-skjal).

 

Næsti fundur í fundaröðinni um atvinnulíf og umhverfi verður haldinn þriðjudaginn 21. nóvember í Húsi atvinnulífsins. Rætt verður um útstreymi frá álverum.