Umbætur í stærstu ríkjum ESB?

Lítill hagvöxtur og mikið atvinnuleysi hefur árum saman einkennt stöðu efnahagsmála í mörgum af stærstu ríkjum ESB, ekki síst í Þýskalandi og Frakklandi. Greining á orsökum vandans hefur einkum beinst að skorti á sveigjanleika á evrópskum vinnumarkaði, of stuttum vinnutíma, of lágum eftirlaunaaldri og of mikilli uppsagnarvernd. Þannig hefur OECD ítrekað hvatt til aukins sveigjanleika í vinnumarkaðs-löggjöf umræddra ríkja, sem og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusamtök atvinnulífsins og fjöldi annarra aðila, þ.á m. sjálfir forystumenn umræddra ríkisstjórna, þegar þeir koma saman á vettvangi ESB. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur m.a. sent þau skilaboð til ESB að ætli þessi ríki sér að standast alþjóðlega samkeppni og eiga þess nokkurn kost að fjármagna velferðarkerfi sín verði Evrópubúar einfaldlega að vinna meira.

 

Kosningar í Þýskalandi

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands og leiðtogi þýskra jafnaðarmanna, hefur gert tilraunir til að breyta lögum í þessa átt með litlum árangri sökum skorts á stuðningi úr röðum eigin stjórnarmeirihluta. Þingkosningar verða í Þýskalandi í haust og hafa kristilegir demókratar – sem hafa meira fylgi í aðdraganda kosninganna skv. skoðanakönnunum – boðað ýmsar breytingar í átt til aukins sveigjanleika komist þeir til valda. Haldi Schröder velli má jafnframt ætla að hann hefði í kjölfarið sterkari pólitíska stöðu til að hrinda einhverjum þeim umbótum í framkvæmd sem hann hefur áður boðað. Áherslan í málflutningi jafnaðarmanna hefur þó verið á annan veg undanfarið, og því óvarlegt að fullyrða að í Þýskalandi séu einhverjar umbætur í vændum á þessu sviði.

 

Uppsagnir starfsfólks auðveldaðar í Frakklandi

Í kjölfar þess að franska þjóðin hafnaði stjórnarskrársáttmála ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar var nýr forsætisráðherra skipaður í ríkisstjórn hægrimanna þar í landi, Dominique de Villepin, sem virðist ætla að láta verkin tala. Hann hefur nú þegar boðað breytingar á lögum sem gera smærri fyrirtækjum auðveldara um vik að segja upp starfsfólki, en möguleikinn á að segja upp fólki er í mörgum tilvikum nauðsynleg forsenda þess að fyrirtækin treysti sér til þess að ráða starfsmenn til að byrja með. Þá hefur de Villepin hraðað einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og boðað hert eftirlit með útgjöldum til velferðarmála.

 

Það virðist því hafið yfir allan vafa að leiðtogar þessara stóru Evrópuríkja hafi áttað sig á mikilvægi umbóta í átt til aukins sveigjanleika á vinnumarkaði og aukinnar áherslu á markaðsbúskap og muni hrinda þeim í framkvæmd í náinni framtíð.