Um hluthafalýðræði

„Að efla hluthafalýðræði við stjórnun félaga er eitt af markmiðum Evrópusambandsins á sviði félagaréttar. Í kjölfar birtingar nýrrar könnunar og skýrslu sem Evrópusambandið lét vinna um jafnan rétt hluthafa fer nú fram mikil umræða innan Evrópusambandsins um hvort framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eigi að hafa frumkvæði að nýrri löggjöf um hluthafalýðræði í hlutafélögum. 

 

Allir hlutir hafi jafnan rétt

Flestum hlutafélögum er stjórnað með það að leiðarljósi að hverri krónu fylgi eitt atkvæði, þannig að beint samband sé á milli eignarhalds hlutafjár og stjórnunarréttar innan félagsins. Með öðrum orðum að allir hlutir í félaginu hafi jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta. Er almennt talið að eigendur hlutafjár séu best til þess fallnir að taka ákvarðanir um málefni félagsins þar sem áhrif slíkra ákvarðana muni fyrst og fremst koma niður á þeim sjálfum.

 

Ákvæði íslenskra laga

Gengið er út frá meginreglunni um jafnan rétt hluta í íslensku hlutafélaga- og einkahlutafélagalögunum. Frá meginreglunni um jafnan rétt hluta eru þó til undantekningar í íslenskum lögum. Eru slíkar undantekningar byggðar á hugmyndinni um samningsfrelsi þar sem gengið er út frá því að félög eigi að geta ráðið því sjálf hvernig stjórnun þeirra er fyrirkomið að því marki sem lög setja því ekki sérstakar skorður. Um leið hafi fjárfestar frelsi til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og geti þannig sneytt hjá að fjárfesta í félögum sem hafa stjórnunarfyrirkomulag sem þeim fellur ekki við. Í samræmi við þetta er í íslenskum hlutafélaga- og einkahlutafélagalögum gert ráð fyrir að í samþykktum félaga sé hægt að kveða á um skiptingu hlutafjár í flokka með mishá réttindi svo og að stofnendur geti notið sérréttinda sé um það kveðið í stofnsamningi. Sömu markmiðum má einnig ná með gerð hluthafasamninga þar sem hluthafar sammælast um að beita atkvæðum sínum á tiltekinn hátt eða að ákveðnar ákvarðanir verði ekki teknar nema með samþykki tiltekinna hluthafa.

 

Ný könnun framkvæmdastjórnar ESB

Í aðgerðaráætlun framkvæmdastjórnarinnar á sviði félagaréttar sem er frá árinu 2003, er mælt fyrir um að gerð skuli könnun á sambandinu á milli eignarhalds og stjórnunar í aðildarríkjunum. Voru niðurstöður könnunarinnar birtar nú ekki alls fyrir löngu. Eru niðurstöðurnar um margt áhugaverðar en í ljós kom að í öllum þeim ríkjum sem skoðuð voru var heimilt að víkja frá meginreglunni um jafnan rétt hluta að einhverju leyti. Hins vegar voru í flestum þeim tilvikum þar sem slík frávik voru leyfð mjög ströng skilyrði um framkvæmdina og kröfur gerðar um gegnsæi frávika frá meginreglunni.

 

Algengustu frávikin frá reglunni um jafnan rétt hluta

Íslensk lög setja engar hömlur á að hve miklu leyti hægt er að víkja frá meginreglunni um jafnan rétt hluta með hlutaflokkum og hafa íslensk félög því mikið valfrelsi og sveigjanleika að því leyti. Þó er ekki hægt með hlutaflokkum að ganga gegn ákvæðum hlutafélagalaga. Engin könnun hefur verið gerð hérlendis um það hversu algeng notkun hlutaflokka í íslenskum félögum er. Er það því eingöngu byggt á tilfinningu undirritaðar að hér er því haldið fram að hlutaflokkar séu fremur lítið notaðir hér á landi. Hinsvegar leyfir undirrituð að halda því fram að það það sé á hinn bóginn nokkuð algengt og fari vaxandi að hluthafar geri með sér hluthafasamninga hér á landi. Eru hlutaflokkar helst notaðir ef eingöngu er ætlunin að veita tilteknum hluthöfum aukið atkvæðavægi eða aukinn rétt til arðgreiðslna. Ef menn vilja á sama tíma setja reglur um forkaupsrétt, takmarkanir á sölu tiltekinna hluthafa eða vilja fá hluthafa til að skuldbinda sig varðandi framtíðarfjármögnun félagsins svo dæmi sé tekið, er algengara að hluthafar geri með sér hluthafasamninga en að taka upp hlutaflokka.

 

Þau frávik frá meginreglunni um jafnan rétt hluta sem skoðuð voru sérstaklega í könnun Evrópusambandsins sýna hversu slík frávik geta verið margbreytileg. Algengustu frávikin sem komu til skoðunar voru hlutir með mismunandi atkvæðavægi, hlutir án atkvæðisréttar, hlutir án atkvæðisréttar en með aukinn rétt til arðgreiðslu, myndun hluthafahópa með eignarhaldsfélögum, hlutir með neitunarvaldi eða öðru sérstöku valdi til að hafa áhrif á tilteknar ákvarðanir, þak á atkvæðisrétti tiltekinna hluthafa, veðsetning hluta þar sem veðhafinn nýtur fjárhagslegra réttinda hlutanna en ekki atkvæðisréttar, regla um einn hlut á hvern hluthafa burtséð frá eignarhlutdeild, þak á heimildum til að eignast hluti. Þá voru einnig skoðaðar aðrar leiðir til að veita einstökum hluthöfum sérréttindi en notkun hlutaflokka s.s. notkun samlagshlutafélagaformsins sem er byggt upp á hugmyndinni um mismunandi tegund hluthafa þar sem a.m.k. einn er nokkurskonar “sofandi meðeigandi”, notkun hluthafasamninga, kross-eignarhald milli tveggja félaga og “gullnir hlutir” þar sem hið opinbera hefur fært ríkisstofnanir í búning hlutafélaga en gefur hinu opinbera þó rétt til neitunarvalds eða að koma í veg fyrir yfirtökur.

 

Kostir og gallar reglunnar um jafnan rétt hluta

Ljóst er að hluthafar telja ákveðna kosti fylgja því að taka upp hlutaflokka eða önnur kerfi sem gera það kleyft að víkja frá meginreglunni um jafnan rétt hluta í félögum, annars væri slíkt einfaldlega ekki gert í þeim mæli sem raun ber vitni í könnun Evrópusambandsins. Hins vegar geta ákveðnir gallar einnig fylgt slíku fyrirkomulagi. Þannig er talið að hluthafar með aukinn atkvæðisrétt í hlutfalli við eignarhald hafi tilhneigingu til að taka of mikið tillit til sinna persónulegu hagsmuna við ákvörðunartöku í stað hagsmuna almennra hluthafa til arðgreiðslna og gengis hlutafjár félagsins og geti þannig komið í veg fyrir nauðsynlegar skipulagsbreytingar hjá félaginu s.s. breytingar á stjórn þess. Þá getur þak á eignarheimildum og þak á atkvæðisrétt gert yfirtökur á félaginu nánast ómögulegar. Sumir gætu séð slíkt sem kost en almennt er talið að möguleikinn á yfirtöku sé nauðsynlegur til að halda stjórn félagsins á tánum og sem mestri hagkvæmni í rekstri þess.

 

Burtséð frá slíkum kenningum um kosti og galla reglunnar um jafnan rétt hluta er auðvitað helsta mælistika þess hvort slíkt sé félagi til góðs eða ekki, hvort auðvelt sé að selja hluti í félögum sem fylgja ekki þessari meginreglu og hvað fjárfestum finnst um slíkt. Í könnun Evrópusambandsins var rætt við fjölda fjárfesta og var viðhorf þeirra til þessa mjög mismunandi. Þannig kváðust sumir hafa það sem reglu að fjárfesta aldrei í félögum sem ekki fylgdu reglunni um jafnan rétt hluta þar sem fjárfesting í slíkum félögum væri áhættusöm í eðli sínu á meðan aðrir töldu að verð hluta í slíkum félögum væri venjulega lægra en ella og að í því gæti falist kauptækifæri. Ljóst var þó að meirihluti þeirra fjárfesta sem spurðir voru töldu frávik frá reglunni um jafnan rétt hluta vera neikvæð en þó mismikið eftir því hvers konar frávik um var að ræða. Var frekar kallað eftir reglum um gegnsæi frávika frá reglunni um jafnan rétt hluta fremur en að slíkt yrði bannað eða heft á einhvern hátt.

 

Þá ber að hafa í huga að lögfesting reglunnar um jafnan rétt hluta og bann við frávikum frá henni getur þýtt að hluthafar leiti einfaldlega annarra leiða til að ná sama markmiði um aukinn rétt tiltekinna hluthafa, leiða sem erfiðara getur verið að stjórna og sem ekki eru jafn gegnsæjar og hlutaflokkar.

 

Í ljósi ofangreinds kemur það því ekki á óvart að viðbrögð BUSINESSEUROPE, samtök atvinnulífsins í Evrópu, við þessari könnun Evrópusambandsins hafa verið á þá leið að ekki sé þörf á lögsetningu um þetta efni. Hvaða stefnu málið á eftir að taka í meðferð Evrópusambandsins á þó enn eftir að koma í ljós."

 

Guðrún Björk Bjarnadóttir - Viðskiptablaðinu 25. september 2007

 

Höfundur er lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins

og aðjúnkt í félagarétti við Háskólann í Reykjavík