Um framkvæmd verðkannana

Samtök atvinnulífsins hafa sent Neytendastofu umsögn um drög að leiðbeinandi reglum um verðkannanir til opinberrar birtingar. Reglunum er ætlað að koma í stað reglna um sama efni sem Samkeppnisstofnun gaf út 4. desember 2000. Samtök atvinnulífsins gera ekki athugasemd við efni reglnanna. Telja má að reglurnar miði að vandaðri framkvæmd verðkannana sem gefi skýra heildarmynd af markaðnum. Kemur til dæmis fram að jafnan skuli gætt að þeirri eðlilegu og sjálfsögðu kröfu að bera aðeins saman verð á sömu vöru og/eða þjónustu eða vöru og þjónustu sem er að öllu leyti sambærileg að gæðum. Vandamálið við framkvæmd verðkannana hér á landi er hins vegar meðal annars það að margir þeirra sem gera verðkannanir virða ekki þær sjálfsögðu kröfur sem er að finna í umræddum reglum.

 

Óvirkt eftirlit

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins segir að ekki verði séð að virkt eftirlit hafi verið með því af hálfu Neytendastofu og áður Samkeppnisstofnunar að reglunum væri fylgt. Ennfremur er bent á að ekki verði betur séð en að viðurlagaákvæði laga nr. 57/2005 taki aðeins til fyrirtækja en ekki t.d. til samtaka launamanna eða neytenda sem birta verðkannanir. Með hliðsjón af þungum viðurlögum sem heimilt er að beita fyrirtæki vegna brota á lögunum sem og á samkeppnislögum verður að teljast óeðlilegt að engin úrræði séu til staðar til að bregðast við ef þeir aðilar sem fyrirferðamestir eru við gerð verðkannana virða ekki kröfur sem byggjast á lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

 

Fyllsta hlutleysis verði gætt

Samtök atvinnulífsins telja mikilvæga kröfu sem birtist í fyrrgreindum reglum að við öflun upplýsinga, úrvinnslu og birtingu verðkannana skuli fyllsta hlutleysis gætt sem og að tölfræðilegrar nákvæmni skuli gætt við úrvinnslu gagna, enda sé birtingaraðili ábyrgur fyrir niðurstöðum sínum. Ennfremur sé þýðingarmikið að þegar birtur er samanburður á verðlagi verslana beri að flokka verslanir niður í samstæða hópa eftir stærð, vöruvali og þjónustustigi verslana. SA taka einnig undir sjónarmið Neytendastofu um að þess skuli gætt að ályktanir sem dregnar eru af verðkönnunum séu í fullu samræmi við niðurstöður þeirra og að umfang könnunar skuli réttlæta þær ályktanir sem af henni eru dregnar.