Þokkalegar afkomuvæntingar fyrirtækja

Tæp 30% fyrirtækja reikna með versnandi afkomu á næstu mánuðum, en um 20% reikna með að afkoman fari batnandi. Best er hljóðið í fjármála- og sjávarútvegsfyrirtækjum en verst í fyrirtækjum í ferðaþjónustu. 

 

 

Flest fyrirtæki gera ráð fyrir að afkoma þeirra haldist svipuð á komandi mánuðum.  Fyrirspurnir voru sendar til um 1.100 fyrirtækja í Samtökum atvinnulífsins og svöruðu 417 eða tæp 40%. Helmingur sagðist gera ráð fyrir svipaðri afkomu og verið hefur á komandi mánuðum. Tæp 30% töldu að afkoman myndi versna og rúm 20% bjuggust við batnandi hag.

 

Miklar sviptingar hafa verið í íslensku efnhagslífi undanfarin misseri. Fall krónunnar ætti að öðru jöfnu að koma útflutnings- og samkeppnisfyrirtækjum vel, en verst þeim þjónustufyrirtækjum sem skuldsett eru í erlendri mynt.  Fleiri fjármála-, útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki (SFF, LÍÚ, SF) búast við að afkoman batni en að hún versni, en í öðrum atvinnugreinum er þessu öfugt farið.  Verst er útlitið hjá iðnfyrirtækjum (SI) og í ferðaþjónustu (SAF).  Hryðjuverkin í Bandaríkjunum voru mikið áfall fyrir ferðaþjónustu alls staðar í heiminum, en árstíðasveiflur eru líka miklar í greininni. Skattabreytingar sem ráðgerðar eru munu hafa bein áhrif á afkomuna strax eftir áramót.  Þær leggjast fremur vel í fyrirtækin, eins og fram kemur í annarri frétt. Mjög svipað hljóð er í fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. 

 

Þessi könnun bendir til þess að menn eigi frekar von á nokkrum samdrætti í efnahagslífinu á næstunni. Sú niðurstaða rímar við nýlegar niðurstöður á mælingum Gallup á afkomuvæntingum almennings, en síður við sambærilegar mælingar DV.