Þjónustutilskipun ESB: Jákvætt skref en samt vonbrigði

Á vettvangi ráðherraráðs ESB hefur náðst samkomulag um útfærslu á þjónustutilskipun sambandsins, eftir áralanga umfjöllun og málamiðlanir innan stofnana þess (málinu er ekki þar með lokið, fer næst til annarrar umræðu Evrópuþingsins, en talið er líklegt að niðurstaðan liggi nú fyrir í aðalatriðum). Niðurstaðan er óneitanlega vonbrigði fyrir evrópskt atvinnulíf þar sem gildissvið upphaflegra tilskipunardraga hefur verið takmarkað og hún nær nú til færri geira en lagt var af stað með. Þá er svokölluð upprunalandsregla nú horfin en í staðinn er komið almennt ákvæði um að hvert aðildarland skuli tryggja frelsi til að veita þjónustu innan landamæra sinna svo og tryggja frjálsan aðgang að þjónustu. Jafnframt að ef þau nýta sér heimildir til að takmarka frelsi til að veita þjónustu skulu slíkar takmarkanir gerðar á jafnræðisgrundvelli og vera nauðsynlegar og hæfilegar. Aðildarríkjunum verður því heimilt að takmarka frelsi til að veita þjónustu á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis, umhverfisverndar og heilbrigðis.

 

Jákvætt skref en ekki frjáls þjónustuviðskipti

Það er því fjarri því að upphaflegt markmið um frjáls þjónustuviðskipti innan EES sé í höfn, en niðurstaðan er þrátt fyrir allt áfangi á þeirri leið. Vonir höfðu staðið til þess að með samþykkt tilskipunarinnar myndi samkeppnishæfni Evrópu aukast allverulega og nýleg óháð könnun styður það en hún leiddi í ljós að allt benti til þess að 600.000 ný störf myndu verða til og erlend fjárfesting aukast um 34% sem bein afleiðing af samþykkt þjónustutilskipunarinnar. Ákaft er kallað eftir því enda atvinnuleysi mikið víða í Evrópu.

 

Ernest-Antoine Seillière forseti UNICE, Evrópusamtaka atvinnulífsins, segir í yfirlýsingu að þótt niðurstaðan sé ekki nægilega metnaðarfull þá sé þó um að ræða jákvætt skref í átt til frjálsra þjónustuviðskipta og því muni evrópskt atvinnulíf reyna að gera sér sem mestan mat úr niðurstöðunni.