Þjarmað að atvinnulífi til einskis

„Stjórn Seðlabankans á peningamálum hefur verið eitt af helstu áhyggjuefnum Samtaka atvinnulífsins á síðustu misserum en bankinn hefur með vaxtahækkunum sínum kallað fram miklar sveiflur á gengi krónunnar sem hafa valdið atvinnulífinu skaða án þess að skila nokkrum teljandi árangri í að halda verðbólgunni niðri.

 

Á fundi stjórnar samtakanna síðastliðinn þriðjudag  var stjórn peningamála enn til umræðu og var það einróma álit stjórnarmanna að við núverandi ástand yrði ekki unað. Hágengistímabil krónunnar koma illþyrmilega við fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisgreinum og óstöðugleiki gengisins breytir forsendum rekstrarlegra ákvarðana í öllum atvinnugreinum á ófyrirsjáanlegan hátt og gerir öllum fyrirtækjum erfitt fyrir.

 

Vill stjórnin enn herða baráttuna fyrir breytingum á peningastefnunni þar sem viðurkenndur verði vanmáttur núverandi stefnu til þess að vinna gegn verðbólgu þrátt fyrir miklar fórnir atvinnulífsins. Í stað þess verði farnar aðrar leiðir og hagfelldari fyrir atvinnulífið en síst áhrifaminni til þess að vinna gegn verðbólgu. Samtök atvinnulífsins munu á næstunni knýja á um aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka í ljósi þess að væntingar um starfsumhverfi atvinnulífsins á næstu misserum munu hafa veruleg áhrif á næstu kjarasamninga.

 

Miklar umræður urðu á fundi stjórnar Samtakanna um stöðu krónunnar sem gjaldmiðils en innan stjórnarinnar hafa verið sterkar raddir um að æskilegt sé að Íslendingar taki upp Evru sem gjaldmiðil. Um þetta hefur hins vegar ekki verið samstaða innan Samtakanna og þau því ekki sett það fram sem stefnu sína. Þá breytir upptaka Evru eftir margra ára feril aðildarviðræðna að ESB og aðlögun að skilyrðum um þátttöku í myntbandalagi Evrópu ekki stöðunni gagnvart vaxtastefnu Seðlabankans á næstu mánuðum.

 

Hins vegar var það niðurstaða stjórnarinnar að beina því til allra aðildarsamtakanna að taka gjaldmiðilsmálið til umfjöllunar. Fyrst og fremst þarf að kanna hvort þær breytingar sem hafa orðið á íslensku atvinnulífi og efnahagslífi leiði til endurmats á því hvort einstakar atvinnugreinar telji sér betur borgið með öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni.  Þessar breytingar á aðstæðum felast í því að gengi krónunnar sveiflast ekki lengur í takt við stöðu hinna hefðbundnu útflutnings- og samkeppnisgreina. Nú eru aðstæður á íslenskum og alþjóðlegum fjármálamarkaði ráðandi um þróun gengisins auk tímabundinna áhrifa af vaxtastefnu Seðlabankans. Skýrasta birtingarmynd þessara nýju aðstæðna er að gengi krónunnar hækkaði í kjölfar þess að tilkynnt var um mikinn niðurskurð á þorskveiðiheimildum fyrir nýhafið fiskveiðiár.

 

Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort ný yfirferð á gjaldmiðilsmálinu innan aðildarsamtaka Samtaka atvinnulífsins muni hafa í för með sér samstöðu um nýja stefnu í málinu. Það sem liggur hins vegar fyrir er að núverandi vaxtastefna og gengissveiflurnar hafa skapað mikinn usla í atvinnulífinu og að við það geta hvorki né vilja íslensk fyrirtæki una. Því er eðlilegt að horft sé til allra þeirra þátta sem máli geta skipt hvort heldur í bráð eða lengd.”  

 

Vilhjálmur Egilsson