Sveitarfélögin axla ekki hagstjórnarábyrgð

„Það kann að öðru óbreyttu að vera beinlínis óæskilegt frá sjónarhorni hagstjórnar að auka vægi sveitarfélaga í þjóðarbúskapnum,“ sagði Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, m.a. í ræðu á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann sagði svo virðast sem sveitarfélögin ættu enn erfiðara en ríkið með að standa gegn kröfum um aukna opinbera þjónustu. Sagði hann sveitarfélögin í heild ekki hafa axlað hagstjórnarábyrgð með viðunandi hætti og nefndi kjarasamninga við starfsmenn sveitarfélaga, sem ítrekað hafa gengið lengra en kjarasamningar á almennum markaði án þess að útgjaldaauka sé mætt með niðurskurði á öðrum sviðum, og umtalsverða fjárfestingu á ýmsum sviðum, þegar almennt þensluástand ríkir í þjóðfélaginu. Þá fjallaði Ingimundur um hvernig fjárfestingar sveitarfélaganna hafa beinlínis magnað hagsveiflur undanfarinna ára.

 

Tvískiptur vinnumarkaður

Þá fjallaði Ingimundur um tvískiptingu íslensks vinnumarkaðar. „Opinberir starfsmenn hafa ýmis réttindi umfram fólk á almennum vinnumarkaði, til dæmis á sviðum lífeyris-, orlofs- og veikindaréttar, auk uppsagnarverndar. Þetta gildir jafnt um starfsmenn sveitarfélaga sem ríkisstarfsmenn. Lengi vel voru sérréttindi opinberra starsmanna skýrð með því, að laun væru almennt hærri á almennum vinnumarkaði. Þau rök eiga ekki lengur við, þar sem laun og kjör opinberra starfsmanna hafa árum saman hækkað meira en laun á almennum vinnumarkaði.“ Vitnaði Ingimundur m.a. í fræðslurit Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2003 um kjör starfsmanna sveitarfélaga.

 

„Alvarlegur sambýlisvandi hefur ríkt á hinum tvískipta vinnumarkaði, sem endurspeglast í ólíkri launastefnu og ójöfnum réttindum. Við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði gætir vaxandi spennu af þessum sökum, og er einsýnt, að þessi þróun getur ekki haldið áfram.  Svigrúm til launabreytinga verður að skilgreina í samkeppnisgreinum atvinnulífsins og verða kjarasamningar opinberra aðila að taka mið af þeirri þróun. Af reynslu undanfarinna ára mætti ætla, að sveitarfélögin hafi markað gagnstæða stefnu. Tímabært er að stefna að því að gera íslenskan vinnumarkað einsleitari með því að fella niður lögbundin forréttindi opinberra starfsmanna, enda hefur núgildandi fyrirkomulag gengið sér til húðar. Flestum hlýtur að vera ljóst, að starfsmönnum á almennum vinnumarkaði verður ekki boðið upp á að tryggja rúm lífeyriskjör opinberra starfsmanna með skattgreiðslum sínum á sama tíma og þeir verða sjáflir að sæta skerðingar á eigin lífeyrisréttindum vegna lengri lífaldurs og vaxandi örorkubyrði almennra lífeyrissjóða... Það er misskilningur að halda, að laun opinberra starfsmanna geti ítrekað hækkað umfram laun starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Samningar sveitarfélaganna, sem fela í sér launahækkanir umfram launabreytingar á almennum vinnumarkaði, grafa undan almennum kjarasamningum og efnahagslegum stöðugleika og skila launþegum lakari afkomu til lengri tíma litið. “

 

Vannýtt tækifæri í einkaframkvæmd

Þá fjallaði Ingimundur um einkaframkvæmd á opinberri þjónustu og sagði mikla möguleika vannýtta hjá sveitarfélögunum á því sviði. Loks fjallaði Ingimundur m.a. um þenslu í efnahagsmálum, hagstjórnarmistök í breytingum á húsnæðislánamarkaði, hátt gengi krónunnar og erfiða stöðu fyrirtækja í samkeppni við erlenda aðila, stöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði o.fl.

 

Sjá ræðu Ingimundar.