Stuðningur við stjórnarskrárdrög ESB

UNICE, Evrópusamtök atvinnulífsins, hafa lýst yfir stuðningi við drög að fyrstu sameiginlegu stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem svokölluð framtíðarráðstefna sambandsins samþykkti á dögunum. Ráðstefnan hefur verið að störfum í fimmtán mánuði og hefur Georges Jacobs, forseti UNICE, tekið þar virkan þátt sem áheyrnarfulltrúi með málfrelsi og tillögurétt.

 

Áhersla á samkeppnishæfni
Að mati UNICE ættu þessi stjórnarskrárdrög að geta stuðlað að bættri samkeppnishæfni aðildarríkjanna og auknu gegnsæi í starfsemi ESB, auk þess að færa sambandið nær borgurunum. Í yfirlýsingu sinni lýsa UNICE yfir ánægju með:

  • það lýðræðislega fyrirkomulag sem viðhaft var á ráðstefnunni og styrkir lýðræðislega ímynd ESB,
  • það jafnvægi sem náðst hefur milli efnahagslegra og félagslegra sjónarmiða, en frá fyrri drögum hefur UNICE lagt mikla áherslu á að samkeppnishæfni ESB yrði gert hærra undir höfði og í fyrirliggjandi drögum hefur verið brugðist við því (grein 3), og þannig viðurkennt að framfarir á félagslega sviðinu eru háðar samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs,
  • þá formlegu viðurkenningu á hlutverki aðila vinnumarkaðarins á vettvangi ESB sem fólgin er í drögunum.

 

Sjá fréttatilkynningu UNICE (pdf-skjal).

 

Stjórnarskrárdrögin má finna á sérstakri heimasíðu framtíðarráðstefnu ESB.

 

Samtök atvinnulífsins eru aðilar að UNICE.