Stimpilgjald úreltur skattur

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, stimpilgjald úreltan skatt sem skekki samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði. Ari segir samtökin lengi hafa talað fyrir því að þessi skattur yrði afnuminn og að þau ásamt vörugjöldum séu efst á blaði hjá SA varðandi þær breytingar sem gera þurfi á skattkerfinu.

 

Hann segir stimpilgjald hafa tíðkast víða en hafi nú verið afnumið að mestu leyti í löndum í kringum okkur og þar sem gjaldið sé enn innheimt sé það mun lægra en hér. Því skekki þessi gjaldtaka samkeppnisstöðu minni fyrirtækja sem ekki hafi tök á að taka lán erlendis frá, bæði við erlend fyrirtæki og stærri fyrirtæki hér heima. Þá sé það óeðlilegt að einstaklingar séu að greiða endurtekinn skatt af lánum og skuldbreytingum vegna sömu eigna. Vandamálið sé auðvitað að ekki sé hægt að skerða tekjur ríkisins með afnámi stimpilgjalds í einu vetfangi. Hins vegar hljóti það að vera mjög sérkennilegt ef möguleikar fólks á að skuldbreyta og lækka hjá sér vaxtakostnað verði til þess að stórauka tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi.