„Stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis“

Sú skýrsla sem nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis hefur nú skilað af sér er vandað og yfirgripsmikið plagg og margar tillögur nefndarinnar eru til bóta, þótt auðvitað sýnist sitt hverjum um einstök atriði. Skýrslan og umfjöllunarefnið verðskuldar því að nægjanlegur tími sé gefinn til frekari umræðna áður en lokið verður við þau lagafrumvörp sem unnið er að í viðskiptaráðuneytinu.  Í nágrannalöndum okkar þykir eðlilegt að slíkar skýrslur liggi frammi jafnvel mánuðum saman og kallað sé eftir umsögnum og álitum, áður en stjórnvöld taka endanlega aftöðu til lögfestingar þeirra tillagna sem lagðar eru fram. Í því ljósi er það sérkennilegt hvað viðskiptaráðherra tekur strax afdráttarlausa efnislega afstöðu til tillagna nefndarinnar, áður en nokkur umræða hefur farið fram. Í fjölmiðlum kemur fram að vonast sé til að frumvörpin verði tilbúin á næstu tveimur vikum og samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu er sagt líklegt að í frumvörpunum felist allar þær tillögur sem gerðar voru í skýrslunni, þar sem ráðherra sé ekki ósáttur við neitt sem þar er!

 

Þörf á samráði

Þessar upplýsingar vekja því miður ekki bjartsýni um að ráðherra hyggist leggja mikið uppúr málefnalegum umræðum um efni skýrslunnar. Samtök atvinnulífsins hafa þó bent á að nægur tími til umræðna  sé mikilvægur, þar sem viðskipta-ráðherra hefur fram til þessa kosið að halda Samtökum atvinnulífsins og öðrum samtökum sem viðskiptalífið hefur falið forystu í sínum málum, algerlega utan við þessa „stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis,“ sem SA telja gagnrýnisvert.

 

Reynslan sýnir að torsótt er að hafa áhrif á efni löggjafar eftir að frumvörp hafa verið samþykkt í þingflokkum stjórnarflokka og verið lögð fram á Alþingi. Þannig varð við meðferð frumvarps til breytinga á samkeppnislögum árið 2000 að samþykkja frumvarpið óbreytt uppá punkt og prik, eins og ráðherra hafði lagt það fram, þótt vel undirbúnar og skynsamlegar tillögur um breytingar kæmu frá atvinnulífinu. Þeim var vísað á bug af ráðherranum. Sumar þessara tillagna er þó að finna í nefndarskýrslunni nú, eins og tillöguna um skilvirkara skipulag samkeppnismála. Það má því segja að sú afstaða að ekki mætti hlusta á breytingartillögur úr atvinnulífinu, hafi frestað þessu framfaramáli og fleirum um mörg ár.

 

Misskilningur ritstjóra

Ritstjóri Morgunblaðsins telur hins vegar samkvæmt leiðara í blaðinu í gær að „sérhagsmunasamtök“ á borð við heildarsamtök íslensks atvinnulífs, eigi hreinlega ekki að hafa með í ráðum þegar stjórnvöld marki stefnu út frá heildarhagsmunum. Virðist það sjónarmið hans ríma við þá yfirlýsingu viðskiptaráðherra að markaðurinn sé fyrir almenning, en ekki fyrir forstjórana og fyrirtækin! Það síðastnefnda hafa menn þó kannski afgreitt sem innihaldslaust lýðskrum.

 

Það er einfaldlega grundvallarmisskilningur hjá ritstjóranum að stilla hagsmunum atvinnulífsins og almennings upp sem andstæðum með þessum hætti. Er það allt í einu orðinn viðurkenndur skilningur á þjóðfélagsgerð Vesturlanda, að þegar menn vinni að heildarhagsmunum, þá séu fyrirtækin og forstjórarnir óvinurinn? Miklu nærtækara er að rifja upp fræg orð Gunnars Sträng, eins helsta forystumanns sænskra jafnaðarmanna og ráðherra 1945-1976, lengst af fjármálaráðherra. Hann lýsti viðhorfi sósíaldemókrata til atvinnulífsins og undirstöðu velferðarkerfisins á þann hátt, að það sem væri gott fyrir fyrirtækin væri gott fyrir almenning. Eða eins og hann sagði það: Det som er bra för Volvo, er bra för Sverige.

 

Lýðræðislegt ákvörðunarferli

Samtök atvinnulífsins hafa ekki gert neitt tilkall til óeðlilegra áhrifa á stjórn landsins. Þau hafa þvert á móti fagnað t.d. þeim breytingum á samskiptum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, að beinum afskiptum samningsaðila af grundvallaratriðum í hagstjórn er lokið, en við hafa tekið samskipti og samtöl um ýmis framfaramál. Samtökin telja það hins vegar vera hluta af  lýðræðislegu ákvörðunarferli þeirra sem kjörnir eru til að stjórna landinu, að hlusta og búa til umræðuvettvang fyrir ákvarðanatöku á ýmsum sviðum í þjóðfélaginu. Verður reyndar ekki betur séð en Morgunblaðið hafi iðulega talið það til merkis um mikla stjórnkænsku og framsýni hjá stjórnvöldum að ná sátt við lögmæta hagsmunahópa í samfélaginu um framþróun mála, hvort sem það hafa verið aðilar vinnumarkaðarins, bændur, eldri borgarar eða aðrir. Harðorðar yfirlýsingar ritstjórans kunna því að litast af afstöðu hans sjálfs til þess máls sem hér er til umræðu, fremur en almennum prinsippum.

 

Eins og fyrr segir hafa Samtök atvinnulífsins gert athugasemdir við undirbúning viðskiptaráðherra að „stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis“ og telja þær athugasemdir fyllilega réttmætar. Það breytir ekki því að það sem nú liggur fyrir er að leggjast nánar yfir skýrslu nefndarinnar og móta afstöðu til einstakra atriða. Með það að leiðarljósi að íslenskt atvinnulíf fái að búa við sambærilegar starfsreglur og gilda í okkar helstu viðskipta- og samkeppnislöndum og geti haldið áfram að sækja fram sem aldrei fyrr. SA hljóta að treysta því að tillit verði tekið til málefnalegra sjónarmiða frá atvinnulífi, ekki síður en öðrum.

 

Ari Edwald