Stefnumót atvinnulífsins í Evrópu 18.-19. maí

Stefnumót atvinnulífsins í Evrópu (e. European Business Summit) fer fram  í Brussel 18.-19. maí næstkomandi þar sem umræður um samkeppnishæfni Evrópu verða í forgrunni. Þjóðarleiðtogar,  stjórnendur stórfyrirtækja, fræðimenn, frumkvöðlar og helstu forsvarsmenn Evrópusambandsins munu stinga saman nefjum og ræða áskoranir og tækifæri í evrópsku atvinnulífi ofan í kjölinn í ljósi aukinnar alþjóðlegrar samkeppni.

 

Samtök atvinnulífsins eru meðal fjölmargra samstarfsaðila BUSINESSEUROPE sem standa að stefnumótinu en SA eiga aðild að BUSINESSEUROPE ásamt SI.

 

Fyrirlesarar frá yfir 60 þjóðlöndum munu taka þátt í umræðunni og greina hvar evrópskt atvinnulíf hefur dregist aftur úr og hvar sóknarfærin liggja. Búist er við að þátttakendur verði um 2.500. Hundruð blaða- og fréttamanna fylgjast með stefnumótinu sem er orðið einn helsti vettvangur samræðu atvinnulífs og stjórnmála í Evrópu ár hvert.

EBS 2011 18.-19. maí í Brussel

Samtök atvinnulífsins í Evrópu (BUSINESSEUROPE) og framkvæmdastjórn ESB eru meðal þeirra sem standa að European Business Summit og fer stefnumótið nú fram í níunda sinn. Yfirskrift þess er "Europe in the world: leading or lagging?" Kunnuleg vandamál eins og takmarkaður hagvöxtur, mikið atvinnuleysi, auknar skuldir hins opinbera og takmörkuð verðmætasköpun verða rædd ásamt stöðu og framtíð evrunnar. Hvernig ætla ríki Evrópu t.d. að bregðast við aukinni samkeppni nýmarkaðsríkja og hvernig ætlar evrópskt atvinnulíf að bregðast við auknum kröfum um græna, vistvæna framleiðslu og sjálfbærni?

 

Að mati BUSINESSEUROPE er öflugt atvinnulíf lykillinn að því að glæða hagvöxt, minnka atvinnuleysið, borga niður opinberar skuldir og bæta lífskjör fólks. Samtökin leggja því mikla áherslu á að stjórnmálamenn leggi sitt af mörkum til að samkeppnishæft atvinnulíf geti þrifist í Evrópu en fyrirtækin leiti ekki annað þar sem rekstrarskilyrði eru hagstæðari.

 

Félagsmenn SA sem hafa áhuga á að taka þátt fá 50% afslátt af þátttökugjaldi.

 

Nánari upplýsingar og skráning:

 

Vefur European Business Summit 2011

 

Vefur BUSINESSEUROPE