Skattlagning eftirgefinna skulda - námskeið 8. nóvember

Á undanförnum mánuðum hafa margir gengist undir fjárhagslega endurskipulagningu. Í tengslum við það eru skuldir umfram eignir gjarnan felldar niður. Þetta er gert í þeirri von að skuldari eigi auðveldar með að standa í skilum með eftirstöðvarnar og byggist því á samfélagslegum ástæðum.Við niðurfellingu skulda er að mörgu að hyggja. Hvernig horfir t.d. skattlagningin við? Ásmundur G. Vilhjálmsson lögmaður og aðjúnkt í skattarétti við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands mun gera grein fyrir skattlagningunni skv. íslenskum lögum á námskeiði Endurmenntunar HÍ þann 8. nóvember nk.

 

Í kynningu á námskeiðinu segir Ásmundur m.a.:

 

„Samkvæmt íslenskum tekjuskattslögum er allir skyldir að greiða skatt af hvers konar efnahagslegum gæðum er þeim hlotnast. Efnahagsleg gæði eru verðmæti sem hægt er að meta til peningaverðs á þeim degi er aðila hlotnast þau.

 

Þegar um kröfur er að ræða - skuldir sem aðili stendur í - ræðst þetta mat af því hvort hann á fyrir skuldunum á þeim degi þegar krafa er gefin eftir. Fái maður, sem skuldar 60 millj. og á eignir að markaðsverði 50 millj., eftirgefnar 12 millj. kr., hafa 10 millj. kr. af niðurfellingunni ekkert verðmæti. Ekki er því unnt að gera honum skatt af niðurfellingu þeirra. Meira álitamál er aftur á móti um eignaaukninguna.

 

Þar sem aðili fær niðurfelldar 12 millj. fara skuldir hans úr 60 millj. í 48 millj. Hrein eign eftir niðurfellinguna er því 2 millj. Þessi hluti eftirgjafarinnar hefur markaðsverð og getur hún þar af leiðandi skapað tekjur enda þótt ekki sé unnt að fullyrða að fjárhæð þeirra verði á endanum nákvæmlega 2 millj.

 

Um skattlagningu niðurfelldra skulda er fjallað í 3. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Skv. henni þurfa menn ekki að greiða skatt af eignaauka eins og þeim sem greinir hér að ofan ef niðurfellingin á sér stað í tengslum við nauðasamninga eða greiðsluaðlögun. Fyrirtækjum er hins vegar fortakslaust skylt að tekjufæra niðurfellinguna.

 

Er það út af fyrir sig gott og blessað. Fyrirtækin hafa jú getað notað lánið til að kaupa fyrir vörur og fyrnanlegar eignir sem síðan hafa verið gjaldfærðar í rekstri og ef til vill myndað tap sem óeðlilegt er að þau geti notað síðar til að lækka með tekjur sínar. Vandamálið er aðeins, að því er haldið fram, að þetta gildi líka um verðlausar kröfur, er þau eiga í hlut.

 

Undirritaður lögmaður heldur því fram að þessi framkvæmd fáist ekki staðist. Til að kynna sjónarmið sín fékk hann því ENDURMENNTUN HÁSKÓLA ÍSLANDS til að gangast fyrir námskeiði um SKATTLAGNINGU VIÐ EFTIRGJÖF Á SKULDUM og verður það haldið 8. NÓV. NK. Á námskeiðinu mun Ásmundur G. Vilhjálmsson lögmaður og aðjúnkt í skattarétti við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands gera grein fyrir skattlagningunni skv. íslenskum lögum.

 

Íslensk tekjuskattslög hvíla á dönskum grunni. Skattlagningin þar í landi getur því skipt máli hér. Að því er varðar eftirgjöf skulda gildir það einkum og sér í lagi tímabilið 1922 til 1985 vegna þess að þá byggðu Íslendingar og Danir í raun á sömu meginreglum. Til að lýsa hinum dönsku reglum hefur ENDURMENNTUN HÁSKÓLA ÍSLANDS fengið JANE BOLANDER prófessor við Syd dansk Universitet i Danmörku til að gera grein fyrir hinum dönsku reglum.

 

Þetta er mikill akkur fyrir okkur Íslendinga því Jane skrifaði einmitt doktorsritgerð um efnið sem útkom 1999. Athuga ber að Jane flytur mál sitt á ensku og ættu því allir að geta skilið hana."

 

Sjá nánar á vef Endurmenntunar HÍ