Skattbreytingar í samræmi við gefin fyrirheit

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt séu eðlilegar skipulags-breytingar á skattkerfinu og í samræmi við gefin fyrirheit. Samkvæmt skattalækkunarfrumvarpinu verður tekjuskattur lækkaður um 4%, eignaskattur afnuminn og barnabætur hækkaðar um tæpan helming á næstu tveimur árum.

Ari segir að breytingunum sé stefnt gegn jaðaráhrifum í skattkerfinu sem séu mikil. Jafnframt séu skattleysismörk aukin sem og stuðningur við barnafólk og því hafi þessar breytingar það yfirbragð að þær nái til margra. Hvað tímasetningu breytinganna varði bendir Ari á að margir samningar séu lausir nú hjá opinberum aðilum og á almenna vinnumarkaðinum auk þess sem framunda sé að meta stöðu kjarasamninga á almennum markaði. Það hljóti að vera jákvætt að mönnum sé þá fyrirfram kunnugt um þá kaupmáttaraukningu sem framundan sé í formi skattalækkana.