Skattaumræða á villigötum

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir skattaumræðuna að hluta til á villigötum og segir í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að munurinn á skattgreiðslum almennings og þeirra sem taka sér laun í gegnum arðgreiðslur eignarhaldsfélaga sé ekki eins mikill og menn vilji vera láta.

 

„Hann er það alls ekki og umræðan hefur því miður verið skelfilega villandi um þessi mál,“ segir Ari. „Ef við tökum mann sem er með eina milljón króna á mánuði að ef að hann er launamaður þá er hann í dag með 35,3% skatt af sínum tekjum þegar tekið hefur verið tillit til persónuafsláttar og greiðslu í lífeyrissjóð og nokkurra annarra þátta. Hjá þeim sem að tekur í gegnum ehf. er skatturinn 28,4% ef maður miðar við að hann hafi reiknað endurgjald upp á 480 þúsund. En það verður að taka tillit til þess að maður sem að hefur félag um sig og sína starfsemi borgar 18% tekjuskatt í félaginu og 10% skatt af arði, en hann verður líka að hafa reiknað endurgjald sem getur lægst verið hjá listamönnum 345 þúsund en hjá sérfræðingi sem hefur engan sérfræðing í vinnu 480 þúsund og upp í 565 þúsund. Og þetta eru auðvitað lágmörk og skatturinn gerir athugasemdir ef að velta gefur tilefni til þess og þetta ætti að vera hærra.“

 

Aðspurður hvort þessi 7% munur myndi þá ekki verða hverfandi ef áætlanir stjórnvalda gengju eftir, um að lækka tekjuskatt einstaklinga um allt að 4% og útrýma hátekjuskattinum segir Ari svo vera. „Því að það sem að menn eru að komast hjá fyrst og fremst með því að vera með sín mál í þessum farvegi er hátekjuskatturinn. Ef að þetta tvennt gerðist að tekjuskattur væri lækkaður um 4% og hátekjuskatturinn hyrfi eins og stefna hefur verið mörkuð um þá yrðu skattgreiðslurnar hjá milljón króna manninum sem launamanni 29,1% en 26,1% ef hann væri í félagi. Þá er þessi munur orðinn þrjú prósentustig. Þannig að þessi tímasprengja sem að menn eru að glamra um hún virðist bara að vera að gufa upp af sjálfu sér bara samkvæmt þeirri stefnu sem að þegar hefur verið mörkuð.“