Skattalækkanir skoðist m.a. út frá stöðu á vinnumarkaði

Í umfjöllun Fréttablaðsins um fyrirhugaðar skattalækkanir segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, erfitt að tjá sig um mögulegar breyttar tillögur ríkis-stjórnarinnar þar sem þær hafi ekki verið kynntar opinberlega enn sem komið er. „Ég held það hljóti hins vegar að vera svo að það spili inn í afstöðu stjórnmálamanna hvernig staðan í efnahagsmálum og á vinnumarkaði er. Þá er ég að vísa til þess að ef einhver upplausn verður á vinnumarkaði um áramótin vegna endurskoðunar kjarasamninga þá teldi ég mikla goðgá að spila skattalækkunum inn í þá stöðu,“ segir Ari.

 

Ari segir að viðbrögð SA á skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar hafi verið jákvæð og telur að frekari skattalækkanir þurfi ekki að valda meiri þenslu en viðbótar launahækkanir eða aukin ríkisútgjöld. Hann segist gera sér vonir um að skattalækkanir fyrir almenning og að sá kaupmáttur sem fólk fær út úr þeim ráðstöfunum til viðbótar við launahækkanir, mælist vel fyrir og verði til þess að treysta frið á vinnumarkaði og stuðla þannig að stöðugleika í efnahagslífinu.