Samkeppnislög gegn málfrelsi og skoðanafrelsi?

„Nú liggur fyrir frumvarp til breytinga á samkeppnislögum þar sem gert er ráð fyrir nýjum og  að verulegu leyti mjög hertum refsiheimildum. Hér verður aðeins fjallað um þann þátt sem snýr að starfsemi samtaka fyrirtækja, en efni frumvarpsins er um margt mjög sérstakt hvað þetta varðar og myndi ef það yrði að lögum verða mjög heftandi fyrir starfsemi samtaka í atvinnulífinu, þ.á.m. Samtaka atvinnulífsins. Samkvæmt 12. grein samkeppnislaga er samtökum fyrirtækja og starfsmönnum og stjórnarmönnum þeirra bannað að hvetja til samráðs eða samkeppnishindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Viðurlög samkvæmt frumvarpinu eru sektir og fangelsi allt að sex árum.   Þetta ákvæði sem snýr að samtökum fyrirtækja hefur verið inni í lögunum frá upphafi en lítið hefur reynt á það. Það er mjög almennt og býður heim hættu á geðþóttaréttlæti.  Engar markalínur eru í lagaákvæðunum milli eðlilegrar starfsemi samtaka og beinnar hlutdeildar í brotum.  Skortur á ásetningi eða gáleysi skiptir ekki máli. Hingað til hefur ákvæðið verið meinlaust en það breytir algjörlega um eðli þegar hinar víðtæku refsiheimildir taka gildi. Nýlegar breytingar á samkeppnislögum í Danmörku ganga t.d. ekki nærri svona langt til að vega að starfsemi samtaka fyrirtækja.

 

Alvarlegt er að í frumvarpinu er mælt fyrir um það að ef brot samtaka fyrirtækja tengist starfsemi  aðila þeirra geti fjárhæð sektar numið allt að 10% heildarveltu þeirra fyrirtækja sem fulltrúa eiga í stjórn samtakanna. Þá segir að ef samtök fyrirtækja sem beitt eru sektum eru ekki gjaldhæf, sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að krefja hvert það fyrirtæki sem á fulltrúa í stjórn samtakanna um greiðslu, þó aldrei meira en sem nemur 10% af heildarveltu þess á síðasta rekstrarári. Hér er farið inn á nýjar og vægast sagt mjög hæpnar brautir í viðurlagaákvæðum og í raun vegið að starfsemi frjálsra félagasamtaka í landinu.

 

Nú er það svo að í starfsemi samtaka fyrirtækja, s.s. Samtaka atvinnulífsins er fjallað um margs konar málefni sem rædd eru fram og til baka. Mörg slík mál eru í eðli sínu þannig að þau gætu hugsanlega átt við þessi ákvæði samkeppnislaga. Umfjöllun SA beinist þá stundum að því að ná fram breytingum á lögum eða reglum sem geta verið hamlandi fyrir samkeppni en líka stundum að þróun viðskiptahátta sem hafa áhrif á markaðinn.  Sem dæmi um þetta má nefna skoðanir og hvatningar þess efnis að fyrirtæki forðist að skipta við verktaka sem nefndir eru “gerviverktakar” en það er til þess fallið að þrengja kost ákveðinna aðila á markaði og beint verið að hvetja aðildarfyrirtæki til þess að skipta ekki við þessi tilteknu fyrirtæki. Stjórnvöld hafa jafnvel óskað eftir samstarfi til þess að koma á slíkum samkeppnishömlum.

 

Annað dæmi má nefna að SA hafa í ákveðnum tilvikum hvatt til þess að í opinberum útboðum sé reynt að sneiða hjá fyrirtækjum sem eru talin ótraust af fjárhagslegum ástæðum og jafnvel grunuð um að greiða ekki skatta og skyldur til samfélagsins eins og þeim ber samkvæmt lögum. Þetta er bein hvatning um að skipta ekki við tiltekin fyrirtæki og þrengir kost þessara aðila á markaði. Þá hafa SA hvatt til opnunar vinnumarkaðarins í því skyni að halda fram beinu ráðningarsambandi milli fyrirtækja og starfsmanna í stað þess að treysta um of á starfsmannaleigur og aðrar hjáleiðir á vinnumarkaðnum. Þetta er bein hvatning og aðgerð gegn viðskiptum við starfsmannaleigur sem þrengir ótvírætt að möguleikum þeirra á markaðnum.

 

Síðastliðið vor vöktu SA athygli á því að þenslan í efnahagslífinu væri m.a. vegna mikillar framleiðslu  af nýjum íbúðum og að ástandið á markaðnum væri óeðlilegt vegna lánskjara Íbúðalánasjóðs. Hvöttu Samtökin til þess að lánshlutföll sjóðsins og annarra aðila á markaðnum yrðu lækkuð til þess að draga úr eftirspurn og takmarka verðhækkanir á markaðnum. Jafnframt hvöttu þau byggingaraðila til þess að fara varlega og draga úr framkvæmdum til þess að koma í veg fyrir offramboð og verðhrun og ná jafnvægi á markaðnum. Samtökin töldu að betra jafnvægi á markaðnum væri nauðsynlegt til þess að vinna gegn þenslu í efnahagslífinu. Þetta innlegg og barátta SA var bein hvatning til stýringar á framboði og eftirpurn og sterk skilaboð um verðlagningu á þessum markaði, þ.e. að verðhækkanir ættu að stöðvast og verð að haldast stöðugt eða lækka að einhverju marki.  Halda má því fram að í þessu hafi falist veruleg inngrip inn í markaðinn af hálfu Samtaka atvinnulífsins sem hugsanlega gætu talist refsiverð samkvæmt lögunum og frumvarpinu enda hugsanlegt að ýmsir aðilar kunni að hafa skaðast a.m.k. til skamms tíma af þessum aðgerðum og sumir t.d. fasteignasalar töluðu gegn þeim. Ríkisstjórnin fór að ráðum SA og breytti lánakjörum í Íbúðalánasjóði og aðrir lánveitendur á markaðnum hafa í meginatriðum fylgt sömu stefnu.   

 

Fyrir gildistöku samkeppnislaganna frá 1993 þegar unnið var að þjóðarsátt um lækkun verðbólgu var mikilvægt að breyta væntingum fyrirtækja um verðbólguþróunina. Á þessum árum í kringum 1990 var ekki óalgengt að forsvarsmenn vinnuveitenda beittu sér beint gagnvart stjórnendum fyrirtækja sem áformað höfðu að hækka verð á vöru eða þjónustu í því skyni að sannfæra þá um að tímarnir væru breyttir og hvetja þá til þess að draga yfirvofandi hækkanir til baka. Þetta var gert í góðu samstarfi vinnuveitenda og verkalýðshreyfingarinnar. Í tengslum við gerð kjarasamninga á síðari árum hefur margoft komið upp umræða um að forystumenn Samtaka atvinnulífsins yrðu að vera tilbúnir til þess að beita sér með sambærilegum hætti og hafa þar með bein áhrif á verðákvarðanir einstakra fyrirtækja.     

 

Samtök atvinnulífsins mega ekki hafa skoðanir og hvetja til aðgerða sem hugsanlega eru ekki í samræmi við samkeppnislög og í frumvarpinu er kveðið á um miklar refsingar ef útaf er brugðið. Þetta er vegna þess að Samtökin eru samtök fyrirtækja. Hins vegar er samtökum einstaklinga heimilt að hafa setja fram sömu skoðanir og hvatningar.  Þannig gildir annað um Alþýðusambandið, Neytendasamtökin og stjórnmálaflokkana. Samtök atvinnulífsins sitja því ekki við sama borð og þessi samtök varðandi félagafrelsi, skoðanafrelsi og málfrelsi. En hvernig eiga Samtök atvinnulífsins þá að geta komið að ýmsum málum við gerð kjarasamninga s.s að vinna gegn gerviverktökum eða starfsmannaleigum eða stöðva verðhækkanir á íbúðum? Hvernig á að vera hægt að ræða mál sem aðeins annar aðilinn má ræða?

 

Hér er aðeins fjallað um mjög afmarkaðan hluta frumvarpsins um breytingar á samkeppnislögum sem snúa beint að refsiákvæðum vegna starfsemi samtaka fyrirtækja, s.s. Samtaka atvinnulífsins. Því miður eru margir fleiri mjög alvarlegir meinbugir á frumvarpinu sem hefðu verulega skaðleg áhrif í atvinnulífinu ef af lögum yrðu. Greinilegt er að við samningu frumvarpsins hafa mjög einlit sjónarmið fengið að ráða þar sem einblínt hefur verið á meint vandamál sem tengjast einstökum málum sem komið hafa til kasta samkeppnisyfirvalda. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið þegar eftirlitsaðilar og önnur stjórnvöld vilja að löggjöfin og atvinnulífið séu sniðin fyrir þá sjálfa í stað þess að atvinnulífið og þarfir þess séu útgangspunkturinn. Þess vegna er hætt við að slík löggjöf sé annað hvort marklaus eða framfylgt af geðþótta og handahófi og brjóti gegn eðlilegum jafnræðissjónarmiðum. “

 

Vilhjálmur Egilsson