Samið við rafiðnaðarmenn

Undirritaður hefur verið kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART) annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) vegna aðildarfélaga hins vegar. Samningurinn gildir frá 5. apríl 2004 og líkt og fyrri samningar sem SA hafa gert að undanförnu gildir hann til ársloka ársins 2007. Almennar launahækkanir eru einnig þær sömu og í öðrum samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu.

 

Laun og aðrir kjaratengdir liðir hækka sem hér segir:

 

5. apríl  2004                 3,25%

1. janúar 2005               3,00%

1. janúar 2006               2,50%

1. janúar 2007               2,25%

 

Lágmarkstaxtar færðir nær greiddum launum

Lágmarkskauptaxtar taka hækkun umfram almennar launahækkanir og verða á samningstímabilinu sem hér segir:

 

Rafiðnaðarmaður með sveinpróf:

2004

2005

2006

2007

Byrjun

152.501

157.076

165.028

172.960

E. 1 ár

156.314

161.003

169.154

177.284

E. 3 ár

160.222

165.029

173.384

181.717

 

Rafiðnaðarmaður með a.m.k. 5 ára sveinspróf og meistararéttindi (eftir meistaranám) og fela má umsjón verkefna:

2004

2005

2006

2007

176.856

182.162

191.384

200.582

 

Rafiðnaðarmaður sem lokið hefur a.m.k. fjögurra anna fagnámi

2004

2005

2006

2007

116.227

119.714

125.775

131.820

 

Einnig var samið um nýjan launaflokk rafiðnaðarmanna skv. virkjunarsamningi RSÍ og SA.

 

Með samningnum eru lágmarkskauptaxtar rafiðnaðarmanna færðir nær greiddu kaupi. Nýir kauptaxtar eiga ekki sjálfkrafa að leiða til hækkunar umfram almennar launahækkanir.

 

Lífeyrismál

Þá hækkar framlag atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóð með sama hætti og í öðrum samningum sem SA hafa gert að undanförnu. Framlagið hækkar í 7,0% frá 1. janúar 2005 og á sama tíma fellur niður skylda til að greiða 1,0% fast í séreignasjóð óháð framlagi starfsmanns. Frá 1. janúar 2007 hækkar iðgjald atvinnurekenda til samtryggingarlífeyrissjóðs í 8,0% samhliða 0,45% lækkun almenns tryggingagjalds.

 

Önnur helstu atriði samningsins

Ákvæðum um kostnaðarliði var breytt mjög til einföldunar og greiðslur felldar inn í mánaðarlaun skv. samningnum. Ýmis ákvæði samningsins eru gerð skýrari en áður var og með því leyst úr ágreiningi sem verið hefur um túlkun. Sérstaklega er áréttað að semja skuli um þóknun í ráðningarsamningi starfsmanns ef honum er gert að sinna þjónustu í frítíma sínum án þess að vera á bakvakt. Kveðið er á um frídag ef starfsmaður þarf að ósk fyrirtækis að ferðast á ólaunuðum frídögum, hafi ekki verið tekið tillit til slíkra ferða við ákvörðun launa. Tekin er inn heimild til tilfærslu fimmtudagsfrídaga og kveðið á um endurskoðun á slysatryggingarkafla samningsins.

 

Gerð var sérstök bókun um fjölskyldustefnu, þ.e. að samningsaðilar beini því til fyrirtækja í rafiðnaði og starfsmanna að hugað verði að mörkun fjölskyldustefnu innan fyrirtækjanna, með það að markmiði að samræma sem best vinnu og einkalíf. Samningsaðilar telja að sveigjanleiki stuðli að góðu starfsumhverfi sem auki starfsánægju, framleiðni og tryggð.

 

Samningsforsendur

Markmið aðila með samningnum er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og jafnvægi á vinnumarkaði, sem hvort tveggja er grundvöllur uppbyggingar og fjölgunar starfa. Í samræmi við þessi markmið hvílir samningurinn á eftirfarandi forsendum:

 

1.       Að verðlag þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

2.       Að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningnum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði.

 

Fari svo á samningstímanum að ofangreindar forsendur bregðist geta aðilar að samningnum skotið málinu til sérstakrar forsendunefndar sem sett verður á fót til að stuðla að framgangi markmiða samningsins og festa forsendur hans í sessi. 

 

Það er mat samningsaðila að kostnaður vegna samningsins sé í samræmi við þann kostnaðarramma sem markaður hefur verið í öðrum samningum SA.