Sameiginleg umsögn um siglingavernd

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög þeirra sjö hafa skilað sameiginlegri umsögn um frumvarp til laga um siglingavernd, en markmið þess er að innleiða í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur og skuldbindingar á sviði siglingaverndar.

 

Alþjóðlegum skuldbindingum mætt, framkvæmdin einföld og hagkvæm

Samtök atvinnulífsins héldu á dögunum fjölmennan opinn fund um efni frumvarpsins og almennt má segja að þar hafi komið fram áhyggjur af þeim kostnaði sem nýju lögin munu hafa í för með sér, kostnaði sem í upphafi mun einkum lenda á höfnum, skipafélögum og útflytjendum, en neytendur munu síðan á endanum bera. Almenn samstaða var um að nauðsynlegt væri að uppfylla alþjóðlegar lágmarkskröfur á trúverðugan hátt, en jafnframt að nauðsynlegt væri að framkvæmdin yrði sem hagkvæmust og hefði sem minnstan kostnað og umstang í för með sér. Samtökin leggja áherslu á mikilvægi þess að þessi meginsjónarmið verði höfð að leiðarljósi við nánari útfærslu á framkvæmd laganna.

 

Í frumvarpinu er ýmsum opinberum aðilum falið að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög telja gríðarlega mikilvægt að vel takist til verka við útfærslu þessara reglna, þ.e. að um leið og framkvæmdin uppfylli lágmarkskröfur alþjóðasamninga, þá sé hún ekki um of íþyngjandi hvað varðar kostnað eða umstang. Lagt er til að bætt verði við nýjum málslið í frumvarpið þess efnis.

 

Þá líta samtökin svo á að gjaldtaka vegna laganna verði í formi þjónustugjalda sem ekki muni nema meiru en einmitt þeim kostnaði sem til fellur vegna þessarar veittu þjónustu.

 

Kostnaðarmat

Loks gera samtökin athugasemd við að ekki sé gerð tilraun til að leggja mat á þann kostnað sem fellur á atvinnulífið – en neytendur munu væntanlega bera á endanum – vegna laganna, líkt og kveðið er á um í lögum um opinberar eftirlitsreglur.

 

Sjá umsögn samtakanna á vef SA (pdf-skjal).