Samanburðarfræði kennara

Einn helsti forystumaður samtaka kennara vék nýlega í útvarpsviðtali  að forsenduákvæðum kjarasamninga aðildar-samtaka Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins. Var því haldið fram efnislega að með forsenduákvæðinu væru forystumenn ASÍ félaga að leggja áherslu á að halda aftur af kjarabaráttu kennara, en berðust ekki af nægri „hörku“ fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna. Það rétta er hins vegar að kröfugerð kennara gengur beinlínis út frá því að aðrir megi alls ekki semja um það sama og kennarar krefjast fyrir sig, eins og nánari athugun leiðir í ljós.

 

Forsenduákvæði kjarasamninga

Umrætt forsenduákvæði almennra kjarasamninga felur það í sér í megindráttum að gengið er út frá því í fyrsta lagi að verðbólga verði í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans og í öðru lagi að kjarasamningar annarra verði í samræmi við þá heildarsamninga sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði. Forsendur samninganna koma síðan til skoðunar í nóvember árin 2005 og 2006 og það getur leitt til viðbragða ef þessar forsendur bregðast. En hverjar yrðu afleiðingar þess að almennir kjarasamningar yrðu „leiðréttir“ til samræmis við kröfur kennara?

 

Öllum er ljóst að boginn hefur verið spenntur til hins ítrasta varðandi launabreytingar á almennum vinnumarkaði. Íslenskir vinnuveitendur hafa játast undir það að laun haldi áfram að hækka meira á Íslandi en í viðskiptalöndunum á næstu árum og það þótt engin dæmi séu þekkt um að hærra hlutfalli verðmætasköpunarinnar sé varið í laun, heldur en hér gerist. Árleg heildarhækkun launakostnaðar í viðskiptalöndum Íslands er að meðaltali um 2,8% um þessar mundir. Takturinn hér á landi gæti hins vegar verið að þróast úr því að vera um 5,5% í ár og niður fyrir 4% á nýhöfnu samningstímabili, verði árlegt launaskrið aðeins um 1%.

 

Ætlast til að aðrir fái minna

Það er engum blöðum um það að fletta að ef kjarasamningar á almennum markaði þyrftu að „leiðréttast“ til samræmis við núverandi kröfur kennarasamtakanna, sem fylgja á eftir með verkfalli 20. september nk. þá myndi blasa við verðbólgu-holskefla og óstöðugleiki af því tagi sem viðgekkst á níunda áratug síðustu aldar þegar laun hækkuðu um rúmlega 1400% en kaupmáttur rýrnaði á sama tíma um 14%. Kennarar eru því ekki það eyland í kjaramálum sem forystumenn þeirra vilja vera láta. Þeim stendur sjálfum hreint ekki á sama hvað aðrir semja um. Fái aðrir það sama og þeir krefjast verður afleiðingin nefnilega neikvæð kaupmáttarþróun fyrir þá eins og aðra hópa launamanna, þótt prósentuhækkanir verði háar.

 

Fyrir liggur að frá árinu 1995 til 2003 jókst kaupmáttur á almennum vinnumarkaði um 22%, skv. launavísitölu Hagstofu Íslands, á meðan kaupmáttur opinberra starfsmanna jókst um 46%. Kennarar hafa verið framarlega í þeirri þróun. Þar til viðbótar koma stórfelldar hækkanir á eftirlaunum kennara, en skv. vísitölu eftirlaunaskuldbindinga vegna opinberra starfsmanna (sem Hagstofa Íslands reiknar) hefur eftirlauna-réttur þeirra rúmlega tvöfaldast frá árinu 1997, sem er 60% kaupmáttaraukning fyrir lífeyrisþega. Til samanburðar er lífeyrisþegum á almennum vinnumarkaði einungis tryggð verðtrygging en engin kaupmáttaraukning, umfram það sem möguleg raunávöxtun sjóðanna kann að gefa tilefni til.

 

Því verður ekki trúað að forystumenn kennara geri sér ekki grein fyrir þeim efnahagslegu staðreyndum sem hér hefur verið rætt um. Í stað þess að ögra forystumönnum innan ASÍ ættu þeir því fremur að viðurkenna að þeir ætlast beinlínis til þess og beina þeirri kröfu óbeint að ASÍ félögum, að þau semji um minna en þeir ætla sjálfir að ná í sínum kjarasamningum. Á þeirri forsendu hvíla hugmyndir kennara um kjarabætur sér til handa.

 

Ari Edwald