SA lýsa áhyggjum af hugsanlegri vaxtahækkun Seðlabanka

Samtök atvinnulífsins lýsa yfir áhyggjum sínum af hugsanlegri vaxtahækkun Seðlabankans nú næstu daga í því skyni að vinna gegn hækkunum á verðlagi í landinu. Í bréfi til bankastjórnar Seðlabankans lýsa samtökin verulegum efasemdum um að vaxtahækkun nú muni skila tilætluðum árangri. „Sú lækkun sem nú hefur orðið á íslensku krónunni frá marsbyrjun varð vegna breytinga á væntingum og trú erlendra aðila á gjaldmiðlinum og stöðu íslensks fjármálakerfis og efnahagslífs. Vaxtahækkun við þessi skilyrði mun tæplega skapa á ný það ástand að gengi krónunnar verði á svipuðu stigi og það var fyrir lækkun og vaxtahækkun er því ólíkleg til þess að hamla gegn verðbólgu svo nokkru nemi. Allt eins má reikna með því að vaxtahækkun þyki ótrúverðug vegna þess hve vextir eru háir fyrir og vegna þess að gengið lækkaði þrátt fyrir þessa háu vexti,“ segir í bréfi SA.

 

Líkur á samdrætti á næsta ári

SA benda ennfremur á að á næsta ári er miðað við að það hægi verulega á í efnahagslífinu, meðal annars þar sem framkvæmdum við stóriðju og virkjanir sé að ljúka í bili. Samtökin hættu á að hraðar og meira dragi úr umsvifum í efnahagslífinu á næsta ári en almennt er miðað við. Vaxtahækkun nú sé því vafasöm og því hvetja Samtök atvinnulífsins Seðlabankann til þess að halda að sér höndum með vaxtahækkun nú og endurmeta stöðuna þegar betur verður séð hvernig gengi krónunnar og fasteignamarkaðurinn þróast.

 

Sjá bréf SA til Seðlabanka Íslands.