SA leggja til taxtahækkanir um kr. 12.000 nú þegar

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fyrir ASÍ og landssambönd þess hugmynd að samkomulagi í ljósi fyrirsjáanlegra vandræða á vinnumarkaðnum á næstu mánuðum og misserum. Ef samkomulag næst á grundvelli þessarar hugmyndar munu samningsbundnir launataxtar hækka um sérstakan taxtaviðauka að upphæð 12.000 krónur á mánuði. Starfsfólki fyrirtækja sem einungis hefur notið almennra launahækkunar undanfarið ár verður tryggð allt að 2% lágmarkshækkun launa til viðbótar við almenna launahækkun. Aðgerðinni er einkum ætlað að koma til móts við þá sem byggja laun sín á launatöxtum eða hafa ekki notið launaskriðs undanfarið ár. Henni er jafnframt ætlað að eyða sérstökum verðbólgutilefnum á árinu 2007 og stuðla þannig að því að hér náist á nýjan leik stöðugleiki í efnahagsmálum og koma í veg fyrir efnahagslegt tjón með afleiðingum til langs tíma.

 

Forsendunefnd hafi lokið störfum

Hluti af samkomulaginu er að forsendunefnd kjarasamninga telst hafa lokið störfum vegna mats á þróun verðbólgu og samningar verða því ekki uppsegjanlegir frá og með næstu áramótum heldur gilda a.m.k. út árið 2007. Samtök atvinnulífsins hafa að undanförnu átt í óformlegum viðræðum við ýmsa forystumenn viðsemjenda sinna og þessi hugmynd að samkomulagi er lögð fram í kjölfar þeirra. Samtökin ganga út frá því að ASÍ og landssambönd þess muni nota næstu tvær vikur til þess að fara yfir hugmyndir samtakanna og í framhaldi af því muni reyna á það hvort samkomulag næst. 

 

Sjá greinargerð með tillögu Samtaka atvinnulífsins.