Ríkisstjórnin standi við gefin fyrirheit í sjávarútvegsmálum

Nýtt kvótafrumvarp stjórnarflokkanna veikir rekstrarskilyrði sjávarútvegsins og er því ekki í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands sem gefin var út í tengslum við undirskrift kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til næstu þriggja ára. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við fréttastofu RÚV. „Mér sýnist að í engu atriði sé verið að bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins en í flestum atriðum verið að veikja þessi rekstrarskilyrði." Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí segir að sjávarútveginum verði tryggð góð rekstrarskilyrði.

 

Vilhjálmur gagnrýnir m.a. takmörkun á framsali aflaheimilda. „Þetta er algjört grundvallaratriði til að mynda hagkvæmni í greininni og ég hygg að ekkert einasta skip sem gert er út í dag væri rekstrarhæft ef þessi regla hefði gilt allt frá upptöku kvótakerfisins." Þá gagnrýnir hann fyrirætlanir um takmörkun á veðsetningu aflaheimilda sem muni skemma fyrir lánsviðskiptum við sjávarútveginn.

 

Framkvæmdastjóri SA segir ljóst að gera þurfi miklar breytingar á kvótafrumvarpinu áður en nýir kjarasamningar taki gildi þann 22. júní næstkomandi og leggur áherslu á að sátt náist um málið fyrir þann tíma. Það verði að treysta því að ríkisstjórnin standi við þá yfirlýsingu sem hún gaf út í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til þriggja ára.

 

Sjá nánar:

 

Horfa á frétt RÚV 16. maí 2011

 

Tengt efni:

 

Yfirlýsing ríkisstjórnar vegna kjarasamninga til þriggja ára (PDF)

 

Upplýsingavefur SA um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til þrigga ára