Rekstur LSH á gjörgæslu?

Enn og aftur berast fréttir af hallarekstri Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH) en hálfsársuppgjör LSH sýnir methalla upp á nærri hálfan milljarð króna, 477 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins. Þrátt fyrir sameiningu Landspítalans og Borgarspítalans og endurskipulagningar á starfsemi er þetta niðurstaðan. Í upphafi ársins tilkynntu stjórnendur spítalans um að reksturinn væri í jafnvægi, en síðan þá hefur sigið á ógæfuhliðina. Framkvæmdastjóri hjá LSH brást við hálfsársuppgjöri spítalans á þann veg að óhjákvæmilegt væri að skera niður þjónustu ef ekki kæmu til aukin fjárframlög til spítalans. Athyglisvert er að öllu öðru en stjórnendum spítalans er kennt um hallareksturinn. Þeir stýra hins vegar starfsmannamálum og taka allar ákvarðanir um hækkanir á launum umfram áætlanir, en launagjöld voru 403 milljónir króna umfram fjárhagsáætlanir á fyrstu sex mánuðum ársins.

 

Læknar kalla á samkeppni og athafnafrelsi

Læknafélag Íslands gagnrýndi LSH harðlega á nýafstöðnum aðalfundi sínum og sagði í ályktun ljóst að sameining Landspítala og Borgarspítala hefði verið misráðin og ekki skilað því sem til var ætlast, hvorki faglega né fjárhagslega, þjónusta við sjúklinga hefði t.d. versnað. Mikilvægt væri að stuðla að því að sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn gætu valið á milli mismunandi stofnana sem sinni svipuðum verkefnum. Þá væri æskilegt að fleiri sjúkrahús væru rekin í Reykjavík til að tryggja góða þjónustu við alla landsmenn. Í ályktuninni segir ennfremur að læknar þurfi nú þegar að hefjast handa við undirbúning sjúkrahúsreksturs á eigin vegum eða í samvinnu við fjárfesta, t.d. í húsnæði Borgarspítalans í Fossvogi.

 

Hagkvæmustu lausna verði leitað

Samtök atvinnulífsins vilja af þessu tilefni minna á tillögur sínar um tækifæri til sóknar í íslenskri heilbrigðisþjónustu, sem kynntar voru í byrjun júní. Þar var áhersla lögð á að minnka yfirbyggingu í íslenskri heilbrigðisþjónustu og að leitað yrði hagkvæmustu lausna við rekstur svo efla mætti þjónustu, auka framleiðni og bæta nýtingu fjármuna. Valkostum neytenda yrði fjölgað og þjónustan skilgreind út frá þörfum fólks en ekki heilbrigðiskerfisins. Kostir einkarekstrar yrðu nýttir þar sem því yrði komið við, t.d. varðandi einstaka þætti í rekstri sjúkrahúsa enda yrði hvergi slakað á kröfum um gæði þjónustunnar.

 

Í ljósi mikilla og vaxandi útgjalda til heilbrigðismála ætti að vera forgangsverkefni að ná tökum á vanda LSH enda tíminn að hlaupa frá okkur - rekstur sjúkrahússins stefnir hraðbyri á gjörgæsludeild. Spár OECD gera þannig ráð fyrir því að heilbrigðisútgjöld á Íslandi muni sprengja öll alþjóðleg kostnaðarviðmið að óbreyttu. Verði ekkert að gert er hætta á að Íslendingar sitji uppi með lítt skilvirkt og rándýrt heilbrigðiskerfi.

 

Tillögur SA í heilbrigðismálum (PDF skjal).