Ræða formanns Samtaka atvinnulífsins á aðalfundi 2012

Opin dagskrá aðalfundar Samtaka atvinnulífsins 2012 fór fram á Hilton Reykjavík Nordica fyrir fullu húsi fimmtudaginn 18. apríl. Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, ávarpaði fundinn en ræðu hans má lesa í heild á vef SA. Vilmundur kom víða við, ræddi m.a. um skaðsemi gjaldeyrishafta og mikilvægi þess að þau verði afnumin hið fyrsta. Vilmundur sagði lykilforsendu fyrir trúverðugri áætlun um afnám gjaldeyrishafta að fylgja stífri, tímasettri áætlun. Samtök atvinnulífsins leggja til að sett verði lög um afnám gjaldeyrishafta sem komi til framkvæmda í ársbyrjun 2013 og fjallaði Vilmundur um hugmyndir SA í ræðunni.

 

Ræða Vilmundar Jósefssonar, á aðalfundi SA, 18. apríl 2012:

 

„Félagar, góðir gestir

 

Skömmu eftir síðasta aðalfund Samtaka atvinnulífsins var skrifað undir nýja kjarasamninga við Alþýðusambandið og landssambönd þess sem gilda til ársins 2014. Við það tilefni sendi ríkisstjórnin einnig frá sér yfirlýsingu um aðgerðir sem hún hugðist grípa til sem höfðu það meginmarkmið að auka hagvöxt í landinu. Kjarasamningarnir eru dýrir atvinnulífinu og var gert ráð fyrir að heildarkostnaður á öllum samningstímanum væri um 13% og nokkru hærri í þeim greinum þar sem laun eru greidd nálægt gildandi kauptöxtum.

Vilmundur Jósefsson á aðalfundi SA 2012

Kjarasamningarnir eru bundnir forsendum um þróun kaupmáttar, verðbólgu, gengis krónunnar og um efndir á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Samningsaðilar voru sammála um að ekki kæmi til uppsagnar samninga í janúar síðastliðnum þrátt fyrir að verulega skorti á að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hafi verið efnd. Í janúar næstkomandi stefnir í að gengi krónunnar verði mun lægra en forsendur samninganna gera ráð fyrir. Launakostnaður hefur aukist verulega meira en samningarnir fólu í sér þar sem launaskrið hefur mælst um 3% síðastliðna 12 mánuði. Einnig ríkir óvissa um þróun kaupmáttar þar sem verðbólga virðist ætla verða meiri en gert var ráð fyrir. Vandi atvinnulífsins er sá að gert var ráð fyrir að aukin umsvif í hagkerfinu myndu létta undir með fyrirtækjunum að standa undir launahækkunum. Enn eru fjárfestingar í algeru lágmarki og ekki sjáanlegar neinar verulegar breytingar þar á. Það eru því verulegar líkur á því að heimild til uppsagnar kjarasamninga muni skapast í janúar 2013. Aðstæður bjóða hins vegar alls ekki upp á svigrúm til frekari launahækkana en þeirra sem um var samið fyrir nær ári síðan.

 

Samtök atvinnulífsins hafa undir höndum margítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að greiða fyrir fjárfestingum í virkjunum, verkefnum tengdum orkunýtingu og mikilvægum innviðum í landinu ásamt loforðum um önnur atriði eins og samstarf um sjávarútvegsmál. Það eru SA mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skuli aftur og aftur hafa brugðist eigin orðum, skrifuðum og sögðum. Tilkynning SA síðastliðið haust um að samtökin muni ekki hafa frumkvæði að neinum frekari samskiptum við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var því sjálfgefin. Það hefur engan tilgang að leita eftir nýjum loforðum sem hvorki er geta né vilji til að efna.

 

Sjávarútveg í fremstu röð

Það hefur ríkt um það mikil samstaða meðal landsmanna að reka eigi íslenskan sjávarútveg sem samkeppnishæfa atvinnugrein í fremstu röð á sínu sviði í heiminum og án ríkisstyrkja. Þetta hefur gengið eftir undanfarna áratugi. Þrátt fyrir mikinn samdrátt aflaheimilda hefur með aflahlutdeildarkerfinu og með samstöðu um sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar tekist að byggja upp fjölmörg frábær fyrirtæki í fremstu röð. Mjög mörg fyrirtæki hafa horfið úr rekstri með sölu eigna, með sameiningu við önnur en án fjöldagjaldþrota og víðtækra inngripa ríkisins eins og áður voru svo algeng. Heilbrigð rekstrarskilyrði greinarinnar verða að byggja á samkeppni milli einstakra greina og byggða og almennt jákvæðu rekstrarumhverfi.

 

Samtök atvinnulífsins höfðu meðal annara að því frumkvæði að skipuð var svokölluð endurskoðunarnefnd um sjávarútveg með víðtækri þátttöku hagsmunaaðila á árinu 2009. Hún skilaði áliti rúmu ári síðar með samkomulagi. Þá hafði ríkisstjórnin sögulegt tækifæri til þess að skapa víðtæka sátt um framtíðarskipan sjávarútvegsmála. En það er kunnugra en frá þurfi að segja að niðurstaða nefndarinnar var að engu höfð. Þess í stað hefur málið verið unnið í myrkum afkimum stjórnarráðsins. Niðurstaðan er sú að lagt er til að breyta grundvallarforsendum í rekstri fyrirtækjanna með því annars vegar að afnema frjálst framsal aflahlutdeildar og auka pólitíska úthlutun aflaheimilda og hins vegar með ofurskattlagningu sem leiða mun til fjöldagjaldþrota í greininni. Þessi áform munu færa umhverfi íslensks sjávarútvegs áratugi aftur í tíma og um þau getur aldrei orðið sátt - hvorki við greinina sjálfa né annað atvinnulíf í landinu.

Frá aðalfundi SA 2012

Niður með gjaldeyrishöftin

Sextíu ára tímabili gjaldeyrishafta lauk með aðild Íslands að EES - samningnum í ársbyrjun 1994. Fastgengisstefnan, sem þá var tekin upp, leið undir lok árið 2001 þegar ekki reyndist unnt að verja gengi krónunnar. Þá var tekið upp verðbólgumarkmið með fljótandi gengi en það fyrirkomulag hafði rutt sér til rúms víða. Á þessum tíma sögðu Samtök atvinnulífsins að „reynslan á næstu misserum mun skera úr um það hvort flotgengisstefna sé hagfelldur kostur fyrir íslenskt atvinnulíf eða hvort stefnan sé of dýru verði keypt og myntsamstarf muni verða framtíðarskipan Íslands í peningamálum". Það var vitað að hin nýja stefna myndi hafa í för með sér meiri sveiflur í gengi, meiri verðbólgu en í nágrannalöndunum og hærri vexti en samkeppnisaðilar búa við. Í sjálfstæðum gjaldmiðli fælist ákveðinn kostnaður. Ekki var þá vitað að í stefnunni gætu falist þær stórkostlegu hættur sem síðar komu í ljós.

 

Peningastefnan sem Ísland tók upp 2001 endaði með hörmungum eins og kunnugt er og er meginástæða þess að tekin hafa verið upp að nýju gjaldeyrishöft. Að nafninu til stendur til að afnema höftin á næsta ári þótt hvorki ríkisstjórnin né Seðlabankinn hafi úrræði né djörfung til að það gangi eftir. Engar líkur eru til annars en að gjaldeyrishöftin verði framlengd að nýju kannski til tveggja ára eða svo. Og þannig koll af kolli. Á hverjum tíma sjá menn skýrt fyrir sér sársaukafullar afleiðingar afnáms haftanna til skamms tíma. Tjón til lengri tíma er hulið enda felst það í því sem ekki gerist, glötuðum tækifærum til hagvaxtar, minni verðmætasköpun en ella, erlendum fjárfestingum sem verður ekki af, innlendum vaxtarsprotum sem visna og töpuðum störfum. Höftin halda gengi krónunnar samfellt lágu og innilokuðum krónum erlendra aðila fjölgar stöðugt með verðbótum, vöxtum og vaxtavöxtum. Vantrú á krónuna mun halda áfram að aukast og þrýstingurinn heldur áfram í vítahring. Vandinn mun stöðugt aukast. Höftin verða hert enn frekar eins og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, hefur lýst svo ágætlega í nýlegum blaðagreinum.

 

Áætlun um afnám haftanna

Lykilforsenda fyrir trúverðugri áætlun um afnám gjaldeyrishafta er að fylgja stífri, tímasettri áætlun þar sem tekin er áhætta á gengislækkun. Væntingar erlendra krónueigenda um gengislækkun og þar með að eignir þeirra rýrni í erlendum gjaldmiðli eru meginhvati þess að þeir vilji selja þær tiltölulega hratt með afslætti. Því meira sem menn búast við að krónan falli þeim mun auðveldara og ódýrara verður að losa þessar eignir. Lækkun gengisins eykur verðbólgu og rýrir kaupmátt en það verður að bera saman við tjón sem höftin valda og kostnað þjóðarbúsins við að greiða erlendum aðilum út krónueignir sínar á hærra gengi en ella. Gengi krónunnar mun líklega rétta af á skömmum tíma eftir fall við afnám haftanna því þegar innlendar krónueignir erlendra aðila hafa verið seldar mun gengi krónunnar einkum ráðast af verðmæti inn- og útflutnings og fjármagnshreyfingum.

 

Samtök atvinnulífsins leggja til að sett verði lög um afnám gjaldeyrishafta sem komi til framkvæmda í ársbyrjun 2013. Þau feli í sér heimildir til kaupa innlendra aðila á aflandskrónum, útgáfu ríkisins á evruskuldabréfum í skiptum fyrir ríkistryggð skuldabréf í eigu erlendra aðila, heimildir banka til útgáfu evruskuldabréfa í skiptum fyrir innstæður í bönkunum, útgönguskatt og mótvægisaðgerðir. Áður en höftin verða afnumin þurfa viðskipti með innilokaðar krónueignir að vera að mestu afstaðin. Það dregur verulega úr þrýstingi til lækkunar gengis krónunnar.

 

Tillögur SA fela í sér eftirfarandi. Í fyrsta lagi verði innlendum eigendum eigna í erlendum gjaldmiðlum heimilað að kaupa krónueignir erlendra aðila. Viðskiptin fari fram á skráðu gengi Seðlabankans með afslætti sem getur numið hlutfallslegum mun á skráðu gengi og aflandsgengi. Í öðru lagi gefi ríkissjóður út skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til 10 - 20 ára og bjóði erlendum eigendum ríkisskuldabréfa í krónum. Íslensku ríkisskuldabréfin verði keypt með fyrrgreindum afslætti. Í þriðja lagi verði bönkunum heimilt að breyta innstæðum erlendra aðila í bundnar innstæður í erlendum gjaldmiðlum til 5 - 10 ára eða í skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til sambærilegs tíma með tilteknum afslætti af krónuinnstæðunum. Öll viðskipti undir þessum þremur liðum verði skattlögð með 2% - 5% veltuskatti. Í fjórða lagi verði leitað samninga við slitastjórnir um að bú gömlu bankanna selji 75% af eignarhlutum sínum í nýju bönkunum gegn greiðslu í erlendum gjaldmiðlum. Í fimmta lagi verði lagður á tímabundinn útgönguskattur á gjaldeyriskaup erlendra eigenda ríkistryggðra skuldabréfa og innstæðna þegar gjaldeyrisviðskipti verða frjáls. Þessi skattur nemi að minnsta kosti hlutfallslegum mun á skráðu gengi krónunnar og aflandsgengi hennar. Hversu hár skatturinn þarf að vera og í hve langan tíma hann gildir fer eftir því hvernig tekst til að ná jafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Takist vel til er skatturinn óþarfur með öllu.

 

Að lokum er lagt til að skuldug heimili verði varin gegn hækkun á greiðslum verðbóta af verðtryggðum lánum með vaxtabótum sem fjármagnaðar verða með fyrrgreindum veltuskatti. Vaxtabæturnar verði ákveðnar á grundvelli tekna og nettóeigna. Þau heimili sem verst eru sett gætu fengið endurgreidda að fullu hækkun á greiðslum verðbóta og vaxta umfram tiltekna viðmiðun.

 

Peningastefna plús - endurtekin harmsaga?

Seðlabankinn boðar nú skýrslu um framtíðarskipan peningamála í vor eða sumar, í framhaldi af bráðabirgðaskýrslu frá síðasta ári undir heitinu Peningastefnan eftir hrun. Ekki þarf mikla spádómsgáfu til þess að geta sér þess til að valkostir Íslands í gjaldmiðilsmálum séu í aðalatriðum tveir, flotgengi eða myntsamstarf. Einnig að einhliða upptöku annars gjaldmiðils verði vísað út í hafsauga, sem og hvers kyns formi af einhliða fastgengisstefnu. Í bráðabirgðaskýrslunni er leiðin vörðuð að nýrri peningastefnu undir heitinu Verðbólgumarkmið plús. Í henni felst að stjórntæki Seðlabankans verði styrkt með svokölluðum þjóðhagsvarúðartækjum. Dæmi um slíkar reglur, sem einkum beinast að fjármálafyrirtækjum, eru hámarks veðhlutföll og lágmarks eiginfjárhlutföll, og takmarkanir á lausafjáráhættu og gengisáhættu. Slíkar varúðarreglur eru víða í deiglunni og mun Ísland væntanlega taka mið af því hvernig þær verða sniðnar í Evrópu og Bandaríkjunum.

 

Oft er sagt að Seðlabankinn hafi aðeins eitt markmið og eitt tæki, þ.e. verðbólgu og stýrivexti. Það er ekki allskostar rétt því annað megin markmið Seðlabankans, samkvæmt lögum, er að stuðla að fjármálastöðugleika og hefur þar yfir að ráða tilteknum úrræðum. Auk vaxtabreytinga hefur Seðlabankinn möguleika á að binda fé lánastofnana og setja þeim reglur um laust fé og um gjaldeyrisjöfnuð.

 

Í þessu sambandi er vert að rifja upp ágæta greiningu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á peningastefnunni fyrir hrun en í henni felst alvarleg gagnrýni á stefnu bankans á árunum 2004 - 2007. Ályktun nefndarinnar var sú að stýrivextirnir hefðu ekki virkað til að slá á verðbólgu með því að draga úr neyslu og fjárfestingu, eins og gerist í efnahagslíkani Seðlabankans. Vaxtahækkanir bankans hafi fyrst og fremst stuðlað að sterku gengi krónunnar og þannig slegið á verðbólgu með lækkun verðs á innfluttum varningi. Mikill vaxtamunur gagnvart útlöndum og sú trú markaðsaðila, að Seðlabankinn myndi ekki leyfa genginu að falla, olli því að mikill vöxtur hljóp í svokallaða jöklabréfaútgáfu, sem hófst haustið 2005. Mikið framboð erlends lánsfjár vegna vaxtamunarviðskipta mætti mikilli innlendri eftirspurn eftir lánsfé og stuðlaði að hækkun eignaverðs og óhóflegri styrkingu krónunnar. Með því jukust líkurnar á því að ójafnvægið leiðréttist með snarpri gengislækkun krónunnar. Rannsóknarnefndin gagnrýndi einnig Seðlabankann fyrir lausafjárfyrirgreiðslu við fjármálastofnanir. Seðlabankinn hafi getað brugðist við neikvæðum áhrifum vaxtamunarviðskipta og dregið úr arðsemi erlendrar lántöku, með því að herða lausafjárkröfur og auka bindiskyldu vegna erlendrar fjármögnunar bankanna.

 

Þetta er rifjað upp því peningastefnan fyrir hrun, og meðfylgjandi vaxtamunarviðskipti, er ein meginástæðan fyrir því að hér eru gjaldeyrishöft og að afnám þeirra er ekki í augsýn. Þá eru nýlegar vaxtahækkanir Seðlabankans áhyggjuefni og ekki síður boðað vaxtahækkunarferli. Ennfremur er boðað að við losun gjaldeyrishafta munu vextir verða hækkaðir enn frekar. Sá grunur vaknar að þrátt fyrir ný úrræði stefni Seðlabankinn þráðbeint að mistökum sem enginn kærir sig um að endurtaka.

 

Lífeyrir starfsmanna er verkefni vinnumarkaðarins

Atvinnurekendur og viðsemjendur þeirra um kaup og kjör á vinnumarkaði hafa í áratugi talið það mikilvægt verkefni sitt að tryggja starfsfólki fyrirtækja eftirlaun. Aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið náið saman að þessu verkefni og hafa samið um greiðslur í lífeyrissjóði og uppbyggingu þeirra í kjarasamningum. Þess vegna sitja fulltrúar SA í stjórnum lífeyrissjóða til jafns við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og hafa það eina markmið að hlúa að sjóðunum sjálfum gagnvart þeim sem njóta lífeyrisréttinda nú eða síðar. Meðan lífeyrisréttindi sem fólk aflar sér á vinnumarkaði eru verkefni kjarasamninga er núverandi skipan stjórna lífeyrissjóðanna eðlileg og verður ekki breytt nema í fullkominni andstöðu við aðila vinnumarkaðarins.

 

Undanfarið hafa margir stjórnmálamenn horft á fjármuni lífeyrissjóðanna girndaraugum og vilja ráðstafa þeim í þágu ríkisins hratt og örugglega. Þetta hefur minnt á börn í sælgætisbúð sem missa stjórn á sér með því einu að horfa á allt góðgætið. Lykilhugsunin að baki lífeyrissjóðunum er sú að þeir sem njóta lífeyrisgreiðslna greiði á sama tíma skatta og skyldur til samfélagsins eftir sömu reglum og aðrir. Samtökin leggjast gegn hvers konar tillögum að gera upptæka þann hluta sjóðanna sem samsvarar skattgreiðslum lífeyrisþega til framtíðar. Víst má telja að stjórnmálamenn hvers tíma gætu ekki setið á sér og lífeyrisþegarnir yrðu að greiða skatta og skyldur aftur þegar að töku lífeyris kemur og þá yrði um tvöfalda skattlagningu að ræða.

 

Gósentíð eftirlitsstarfseminnar

Nú ber vel í veiði fyrir þá sem hafa eftirlit með atvinnulífinu í landinu. Það er oft sagt án þess að fyrir því séu endilega sannfærandi rök að hrunið megi kenna slöku eftirliti með atvinnulífinu. Verulega hefur því fjölgað þeim sem sinna fjármálaeftirliti með bönkum og öðrum fjármálastofnunum. Gjaldeyriseftirlit þenst út og þar mun starfsmönnum halda áfram að fjölga. Merki um aukin umsvif eftirlitsstofnana eru víðar. Samdrætti í föstum fjárframlögum er mætt með nýjum gjaldskrárheimildum og hækkun gjalda þar sem unnt er. Eftirlitsstarfsemin treystir tök sín og er ófeimin að beita valdi sínu. Þetta verður meðal annars til þess að fyrirtækin eru ófús að leita eftir leiðbeiningum hjá viðkomandi stofnunum, til að fá upplýsingar um hvernig best sé að fara að lögum og reglum, af ótta við að þau gjaldi þess síðar.

 

Nýlega voru sett á Alþingi lög um skeldýrarækt sem lýsa vandanum ágætlega og hvernig eftirlitsaðilar og stofnanir tryggja vald sitt. Kræklingarækt er í grunn afar einföld og felst í því að leggja kaðla í sjó og bíða eftir því að kræklingar festi sig þar á og vaxi upp í tiltekna stærð. En það þarf eftirlit þriggja aðila Fiskistofu, Landhelgisgæslu og Matvælastofnunar með starfseminni undir stjórn ráðherra. Tilraunaleyfi eru veitt til að hámarki 6 ára og um þau fjalla Fiskistofa, viðkomandi sveitarstjórn, Matvælastofnun, Landhelgisgæslan, byggingarfulltrúi, Hafrannsóknarstofnun, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun, Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Svo þarf að sækja um ræktunarleyfi að loknu tilraunatímabili og þá þurfa sömu aðilar að fjalla um málið að nýju. Að sjálfsögðu er allur kostnaður innheimtur hjá umsækjanda. Hvenær sem er má afturkalla leyfin af ýmsum ástæðum. Þegar þetta er hugleitt er miklu nær að kalla þetta lög um bann við skeldýrarækt. Það er erfitt að sjá fyrir sér að þessi lög verði til að hvetja til fjárfestingar á þessu sviði.

 

Í miklu fleiri tilvikum en þessu þurfa opinberar stofnanir að skila umsögnum um atvinnustarfsemina. Þrátt fyrir að þeim sé veittur ákveðinn frestur til að skila inn umsögn þá segir reynslan að eftir því er ekki farið og víða er miklu algengara en ekki að stofnanir hafa lögbundna tímafresti að engu hvort sem um er að ræða umsagnir, leyfisveitingar eða úrskurði. Í lögum er nú víða að finna ákvæði um að stofnanir geti lagt á dagsektir til að kalla eftir gögnum. Ekki virðist síður nauðsynlegt að leggja dagsektir á stofnanir sem ekki skila gögnum á tilsettum tíma. 500 þúsund krónur á dag er líklega hæfilegt í þessu skyni eins og ein stofnun hótaði að leggja á fyrirtæki sem ekki skilaði áhættumati í tæka tíð.

 

Í stað þess að flækja hlutina ættu stjórnvöld að leggja upp áætlun um hvernig einfalda megi allt þetta kerfi og setja sér markmið eins og fjölmörg ríki hafa gert um að draga úr eftirlits- og skriffinnskukostnaði vegna atvinnulífsins um tugi prósenta. Það er til dæmis umhugsunarefni að einstakar sveitarstjórnir skuli hafa í hendi sér örlög uppbyggingar innviða sem nýtast allri þjóðinni. Þessu ætti að breyta þannig að sveitarfélögum sé skylt að heimila lagningu t.d. raflagna, samgöngumannvirkja eða fjarskiptalagna án þess að setja fram skilyrði sem verða til að þess að þjónustan verði allri þjóðinni dýrari en þyrfti án nokkurs ávinnings.

 

Norræn velferð

Það hefur komið fram að ríkisstjórnin vill gjarnan láta kalla sig norrænu velferðarstjórnina vegna þess að hún hugðist byggja starf sitt á norrænni fyrirmynd. Það liggja fyrir ágætar greiningar hvað felist í þeirri fyrirmynd og hvers vegna hagkerfi Norðurlanda og félagslegt velferðarkerfi þeirra er jafn öflugt og raun ber vitni. Almennt er talið að opið hagkerfi, samkeppnishæf rekstrarskilyrði, friður á vinnumarkaði ásamt áherslu á að frumkvæði einstaklinga fái að njóta sín og þeir njóti ávaxtanna af starfi sínu hafi lagt grunn að öflugu mennta-, heilbrigðis- og félagslegu stuðningskerfi. Þannig byggir norræna velferðarkerfið á öflugu atvinnulífi, sterkum fyrirtækjum og hagvexti sem skapar skatttekjur og leggur þannig grunn að velferðinni.

 

Það liggur því ljóst fyrir hvað felst í verkefnum norrænnar velferðarstjórnar á Íslandi. Verkefnið er að skapa sátt um samkeppnishæft rekstrarumhverfi sjávarútvegsins, hvetja til aukinnar fjárfestingar á öllum sviðum, skapa sátt um rammaáætlun um orkunýtingu og að ráðast í virkjanir í neðri hluta Þjórsá, hvetja til erlendrar fjárfestingar meðal annars verkefna til nýtingar orkunnar, afnema gjaldeyrishöftin og skapa hér skilyrði til að reka öflug og samkeppnishæf fyrirtæki í alþjóðlegu umhverfi. Í kjölfarið fylgja auknar skatttekjur sem gera stjórnvöldum kleift að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin. Í stað þessa fer ríkisstjórnin með völd sín yfir atvinnulífinu eins og herfang sem hægt sé að ráðstafa að vild í stað þess að leita sátta.

 

Með þetta í