Ráðuneyti endurskoðar verkefni tengd atvinnulífi

Fyrir skömmu kynnti iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti endurskoðun og breytingar á verkefnum ráðuneytisins sem tengjast atvinnulífinu. Forsendur þessarar endurskoðunar eru þær breytingar sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu undanfarin ár. Þar má nefna breytingar á atvinnuháttum, fjármagnsmarkaði, samkeppnisstöðu atvinnugreina, útrás fyrirtækja auk þess sem stöðugt fleiri atvinnugreinar hafa á sér alþjóðlegan blæ og að fyrirtækjum sem leggja áherslu á rannsóknir og nýsköpun fjölgar og þau hafa eflst.

 

Markmiðið með endurskoðuninni er að atvinnuþróunarstefna stjórnvalda byggi á frjóu rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi og að opinber þjónusta við atvinnulífið á landinu öllu sé samræmd. Megináherslan verður lögð á uppbyggingu þekkingargreina og felst hlutverk ríkisins fyrst og fremst í almennum aðgerðum og að stuðningur við atvinnuþróun á landsbyggðinni verði felldur að öðru nýsköpunarstarfi stjórnvalda.

 

Hagræðingar þörf

Hagræða á í stofnanauppbyggingu ráðuneytisins. Byggir endurskoðunin á því að samræma þá starfsemi sem nú fer fram hjá Byggðastofnun, Iðntæknistofnun, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins, Tækniþróunarsjóði, fjárfestingarstofu Útflutningsráðs og iðnaðarráðuneytis, Lánatryggingarsjóði kvenna, stuðningi við kvikmyndagerð og átaki til atvinnusköpunar (Impra).

 

Eins og kunnugt er á Byggðastofnun í miklum vanda, Nýsköpunarsjóði hefur verið þröngur stakkur sniðinn undanfarin ár og svo hafa aðrir aðilar veitt ýmis konar stuðning til vöruþróunar, stofnunar fyrirtækja, rannsóknaverkefna, ráðgjafar o.sv.frv.

 

Sem ein heild

Ætlunin er að allt kerfið vinni sem ein heild og að veittir verði smástyrkir og styrkir til tækniþróunar á allra fyrstu stigum verkefna. Eftir því sem verkefnin nálgast það að almennur markaður taki við þeim verða veitt áhættulán og hlutafé. Að lokum verða veittar lánsábyrgðir þegar verkefnin eru að komast á það stig að almennur fjármagnsmarkaður getur tekið við þeim. Nánar eru þessi lýst í myndinni sem fylgir hér með en hún er tekin úr kynningu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins.

 

Þróunarferli nýsköpunarhugmynda

 

Það hefur almennt fengið góðar viðtökur að ráðuneytið skuli vera skoða þessi mál heildstætt án þess að leggja til grundvallar störf og stefnu einstakra stofnana heldur ganga út frá þeim markmiðum sem ætlunin er að ná. Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að fá að koma að frekari vinnu við þessa stefnumörkun og umræðu um hvaða leiðir verði farnar. Miklu máli skiptir að verkefnin sem náð hljóta verði valin á grundvelli gagnsæs mats og að ferlið tryggi að það séu gæði verkefna sem ráði styrkveitingum á svipaðan hátt og nú er hjá Tækniþróunarsjóði innan almennrar stefnumörkunar stjórnvalda.