Óskýrður launamunur mælist 10-12%

Niðurstöður nýrrar rannsóknar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á launagreiðslum íslenskra fyrirtækja árið 2006 eru þær að munur á föstum mánaðarlaunum karla og kvenna sem ekki verði skýrður með öðru en kyni mælist 10-12%. Föst mánaðarlaun kvenna voru að meðaltali 18% lægri en karla á síðasta ári. Þar af verða 6-8% skýrð með mun á menntun kynjanna, starfi, aldri eða starfsaldri. Rannsóknin var unnin í samvinnu við ParX viðskiptaráðgjöf IBM og Samtök atvinnulífsins.

 

Nákvæmari og umfangsmeiri en fyrri kannanir

Rannsóknin er nákvæmari og mun umfangsmeiri en fyrri kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi á launamun kynjanna og byggir á gögnum úr launabókhaldi 102 fyrirtækja sem ná til til ríflega 6.300 starfsmanna. Fyllsta trúnaðar var gætt þar sem öll gagnavinnsla fór fram hjá ParX undir leiðsögn Hagfræðistofnunar en samstarfsaðilar rannsóknarinnar gerðu í desember 2006 samstarfssamning um gerð skýrslu um launamyndun og skýringar á launamun kynjanna á grundvelli gagnasafns ParX um launagreiðslur.

 

Gögn um ábyrgð, frammistöðu og fjölskylduaðstæður vantar

Gögn um ábyrgð starfsmanna, frammistöðu eða fjölskylduaðstæður voru ekki tiltæk, en vera kann  að hluta launamunarins megi rekja til þessara þátta. Þess vegna er ekki hægt að fullyrða að einungis sé um kynbundinn launamun að ræða heldur getur munurinn stafað af mismunandi ábyrgð og frammistöðu. Óskýrður launamunur milli kynja er nokkru minni en í mörgum nýlegum rannsóknum hérlendis og má meðal annars rekja muninn til nákvæmrar starfaflokkunar og upplýsinga um menntun starfsmanna í þessari rannsókn.

 

Nær öll fyrirtækin í einkageiranum

Fyrirtækin í gagnasafninu starfa í ýmsum atvinnugreinum og nær öll í einkageiranum. Rúmur fimmtungur starfaði við framleiðslu og iðnað, tæpur þriðjungur við verslun og þjónustu, rúmur fimmtungur við fjármál og tryggingar og rúmur fjórðungur í hátækni eða upplýsingatækni. Mun fleiri starfa í fjármála- og tryggingageiranum en í atvinnulífinu í heild og hið sama má segja um hlutfall þeirra sem starfa í hátækni- og upplýsingatæknigeiranum. Skipting eftir menntun er nokkuð frábrugðin skiptingu landsmanna í heild samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, þar sem hlutfallslega færri í safninu eru með grunnskólapróf eingöngu og hlutfallslega fleiri með háskólapróf.

 

Lítill launamunur meðal yngra fólks

Athuganir frá Íslandi og öðrum löndum benda til þess að laun karla vaxi meira með aldri en laun kvenna. Það hefur verið skýrt þannig að konur hafi löngum tekið meiri ábyrgð á barnauppeldi og rekstri heimilis en karlar. Í gagnasafni ParX kemur fram að launamunur karla og kvenna er lítill við 24 ára aldur. Laun beggja kynja vaxa álíka mikið fram á miðjan fertugsaldurinn, en eftir það eykst launamunurinn mikið. Skýring á þessu gæti verið sú að karlar og konur innan við 35-40 ára aldur taki svipaða ábyrgð á rekstri heimilisins. Hjá þeim sem eldri eru sé meira um að konur hafi tekið sér hlé frá vinnu vegna barnauppeldis. Starfsár kvenna á þessum aldri séu færri en jafngamalla karla og frami í vinnu minni. Þess vegna muni meira á launum kynjanna á þessum aldri en hjá þeim sem yngri eru.

 

Myndirnar hér á eftir sýna föst mánaðarlaun eftir aldri og starfsaldri hjá fyrirtæki í gagnasafni ParX. Laun vaxa eftir aldri og ná hámarki hjá konum á aldrinum 35-39 ára en hjá körlum á aldrinum 40 til 44 ára. Þar eð laun karla hækka lengur með aldri en laun kvenna munar meira á launum kynjanna þegar komið er fram yfir miðjan vinnualdur en hjá þeim sem yngri eru.

Laun eftir kyni og aldri í gagnasafni ParX

 

Laun beggja kynja hækka með starfsaldri hjá fyrirtæki þar til 11-15 árum er náð. Eftir það halda laun karla áfram að hækka nokkuð, en laun kvenna lækka. Rétt er að hafa í huga að þessar myndir lýsa þverskurði en ekki þróun. Samsetning starfsmanna eftir aldri er mismunandi, t.d. er menntunarstig þeirra yngri hærra, og því kann lækkun meðallauna þeirra kvenna sem hæstan starfsaldur hafa að stafa af einhverju leyti af því að yngri konurnar eru með meiri menntun og í hærra launuðum störfum.

Laun eftir starfsaldri í gagnasafni ParX

 

Sjá nánar: Skýrsla Hagfræðistofnunar um launamun kynja