Opinber fjármálastjórn og fækkun starfa í atvinnulífinu

Eins og fram kemur í þessu fréttabréfi fer hlutur hefðbundinna útflutnings- og samkeppnisgreina í atvinnulífinu minnkandi. Þannig hefur störfum í sjávarútvegi og iðnaði fækkað um rúmlega fjögur þúsund frá árinu 1998 (byggingarstarfsemi og veitur ekki meðtaldar). Hlutur þeirra atvinnugreina í heild, sem lúta aga alþjóðlegrar samkeppni, er þó mun stærri í vinnumarkaðnum, en þó innan við þriðjungur. Þetta er mikið áhyggjuefni því að öflugur útflutningsgeiri og kraftmikil samkeppni við innfluttar vörur og þjónustu er forsenda jafnvægis í utanríkisviðskiptum og forsenda áframhaldandi hagvaxtar. Hátt gengi krónunnar undanfarin ár hefur, auk almennra tækniframfara, stuðlað að fækkun starfa í gengisháðum greinum í alþjóðlegri samkeppni og enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun þar sem raungengi krónunnar á þessu ári er mun hærra en það hefur áður verið. Það þrengir að atvinnulífinu og hagnaður atvinnulífsins í heild er minni en áður þótt einstök fyrirtæki skili góðum hagnaði.

 

Nauðsyn aðhalds í opinberum fjármálum

Við núverandi aðstæður er því hagstjórn sem byggist á miklu aðhaldi opinberra fjármála eina leiðin sem dugar til að sporna gegn þeirri öfugþróun sem hátt gengi krónunnar hefur í för með sér. Því miður bendir fátt til þess að stjórnmálamenn almennt, í sveitarstjórnum eða á Alþingi, skynji ábyrgð sína í þessum efnum.

 

Vissulega er erfitt að skera niður, eða öllu heldur hamla aukningu rekstrarútgjalda ríkisins, þar sem launaútgjöld vega þyngst eins og kunnugt er, en áhugi stjórnmálamanna er heldur ekki mikill. Þeir telja mun vænlegra til vinsælda að auglýsa sig í tengslum við opinberar framkvæmdir og klippa á borða, heldur en að verja störf í samkeppnisgreinum með takmörkun ríkisútgjalda. Nú er talað um mikinn niðurskurð framkvæmda á vegum ríkisins á næsta ári, en samt verða þau útgjöld um fjórðungi hærri að raungildi en þau voru árið 1997! Hér má því og á að gera betur.

 

Fjárlög bara til hliðsjónar?

Þessi niðurskurður er þó ekki í hendi. Eins og nýleg úttekt Ríkisendurskoðunar sýnir bera stjórnmálamenn litla virðingu fyrir þeim fjárlögum sem þeir samþykkja og senda þau skilaboð út til stofnana að þau séu í besta falli áætlun til að hafa til hliðsjónar. Þegar SA gerðu sambærilega úttekt á stærsta útgjaldasviðinu, heilbrigðismálunum, fyrir rúmu einu og hálfu ári svöruðu margir eins og um einhvern misskilning væri að ræða. Ekki dygði að horfa til fjárlaga, heldur bara heildarfjárheimilda að samþykktum aukafjárveitingum, stundum eftir dúk og disk. Það er alveg ljóst að á meðan slíkur hugsunarháttur ríkir ná menn ekki tökum á rekstri ríkisins. Bæta þarf áætlanagerð og hafa aga á framkvæmd fjárlaga. Er vonandi að vakning verði nú í þessum efnum og framhald á aðhaldi á þeim nótum sem Ríkisendurskoðun setti fram.

 

Sveitarfélög auka á vandann

Hér verður að sjálfsögðu einnig að nefna sveitarfélögin í landinu. Eins og bent var á í nýlegri umfjöllun á vef SA verður ekki séð að sveitarfélög almennt axli yfirleitt neina hagstjórnarábyrgð, eins og nauðsynlegt er að þau geri miðað við umfang sitt í þjóðarbúskapnum. Í fyrra er áætlað að samneysluútgjöld sveitarfélaga hafi aukist um 7% og að aukningin verði 4,5% í ár og á næsta ári. Þessi aukning er margföld á við áformaða aukningu rekstrarútgjalda ríkisins og vinnur gegn öllum markmiðum um stjórn efnahagsmála. Það hlýtur að orka tvímælis að fela þessari stjórnsýslueiningu frekara hlutverk í þjóðarbúskapnum meðan svo stendur að enginn gaumur er gefinn að áhrifum þessarar einingar á efnahagsþróun í landinu.

 

Brýnt að gera breytingar á Íbúðalánasjóði

Einkennilegasti skorturinn á aðkomu stjórnvalda að því að vinna gegn þenslu, á annan hátt en að láta Seðlabankann um vaxtahækkanir sem sverfa að atvinnulífinu, er óskiljanlegt áhugaleysi á að bregðast hratt við brýnum ábendingum allra efnahagsstofnana, innlendra sem erlendra, um nauðsynlegar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Þær áherslubreytingar sem orðið hafa í starfsemi sjóðsins undanfarin misseri hafa reynst mjög varasamar. Vextir hefðu auðvitað lækkað með öflugri fjármálastofnunum og alþjóðavæðingu, en sú stefnumörkun að rýma öðrum fjármálastofnunum útaf þessum markaði, með hækkun lána og lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs, hlaut að leiða til meiri stökkbreytingar og átaka á þessum markaði en æskilegt væri. Framganga sjóðsins við að koma út ríkistryggðu lánsfé eftir að bera tók á uppgreiðslum vekur síðan upp ýmsar spurningar um lögmæti og þá áhættu sem kölluð er yfir ríkissjóð og skattgreiðendur, sbr. umfjöllun í þessu fréttabréfi. Það er meðal brýnustu verkefna stjórnvalda í dag að gera gagngerar breytingar á hlutverki og starfsemi Íbúðalánasjóðs sem einkum ætti að gegna félagslegu hlutverki en ekki keppa við aðila á markaði. Núverandi starfshættir Íbúðalánasjóðs eru bein ógnun við þann verðstöðugleika sem er óumdeilanlega helsta forsenda vinnufriðar í landinu.

 

Þarf viljann til

Framangreind umræðuefni eru í raun aðeins dæmi um að það eru ýmsir aðilar sem geta lagt meira til mála við að auka aðhald og draga úr þenslu í íslensku efnahagslífi, ef viljinn er fyrir hendi. Það skiptir miklu um þróun atvinnulífs og efnahagsmála á næstu árum hvernig við því kalli verður brugðist.

 

Ari Edwald