Ofvöxtur hins opinbera nálgast hættumörk í Danmörku

Vöxtur hins opinbera hefur verið viðvarandi í Danmörku en þriðji hver starfsmaður á dönskum vinnumarkaði er opinber starfsmaður. Alls eru því um 816 þúsund manns sem vinna fyrir ríki og sveitarfélög þar í landi en nú þykir Dönum nóg komið  – tímabært sé að senda hið opinbera í aðhald og megrun. Nýleg skoðanakönnun fyrir DI, dönsku samtök iðnaðarins, leiðir í ljós að 80% dönsku þjóðarinnar telja æskilegt að opinberum starfsmönnum fjölgi ekki frekar frá því sem nú er og stór hluti dönsku þjóðarinnar telur að draga eigi úr umsvifum hins opinbera. Samkvæmt tölum frá OECD eiga Danir ásamt Svíum og Norðmönnum þann vafasama heiður að vera í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að hlutfalli opinberra starfsmanna á vinnumarkaði.

 

Danir vilja gæði

Þegar Danir eru spurðir að því hvort þjónusta hins opinbera sé ekki mikilvæg svara yfir 70% þeirra því að gæði þjónustunnar skipti höfuðmáli – ekki skipti máli hver veiti þjónustuna. DI bendir á að ríki og sveitarfélög geti því allt eins samið við einkaaðila um að veita þá þjónustu sem þeim er skylt að veita svo lengi sem gæðin séu sambærileg eða betri. Áhugavert er að eldra fólk er opnara fyrir því að einkaaðilar veiti opinbera þjónustu, enda hefur það væntanlega meiri reynslu af því að nýta sér opinbera þjónustu en þeir yngri.

 

Þörf á aukinni hagkvæmni

Dönsku samtök iðnaðarins benda á að mikilvægt sé fyrir Dani að nýta fjármuni sína betur, þörf sé á að reka þjóðfélagið með hagkvæmari hætti en nú er gert. Það megi meðal annars gera með aukinni samvinnu hins opinbera og einkafyrirtækja og með því að skýra betur hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera. Ná megi fram hagræðingu með því að bjóða út verkefni til einkaaðila. Ríkið þurfi ekki sjálft að veita þjónustuna aðeins að tryggja að hún sé veitt.

 

Sjá umfjöllun DI (PDF-skjal).