Of mikil verðbólga á Íslandi

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að verðbólgan sé allt of mikil og nýjustu verðbólgutölur auðveldi ekki kjaraviðræður. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, tekur í sama streng og segir í samtali við fréttastofu Útvarps 5,2% verðbólgu ekki óskastöðu við upphaf kjarasamningagerðar og að langtímasamningar séu erfiðir við slíkar aðstæður. Óvissa í efnahagslífinu kalli á styttri samninga án uppsagnarmöguleika, t.d. til tveggja ára. Spenna í hagkerfi og á vinnumarkaði auk gengisóvissu með þeirri vaxtastefnu sem fylgt er hafi þetta í för með sér.

 

Hannes bendir á að það hafi oft verið viðfangsefni kjarasamninga að ná niður verðbólgu og menn hljóti að beina augum að því verkefni að verðbólga verði sem næst því sem er í viðskiptaumhverfi Íslendinga. Verðbólgan sé allt of mikil og verði að hjaðna, þó sé ljóst að á hækkunum undanfarið séu einkum sértækar skýringar eins og fasteignaverðbólga og hækkun á olíu.

 

Frétt RÚV