Ölgerðin fékk viðurkenningu ICEPRO

ICEPRO, samstarf um rafræn viðskipti, veitir í ár Ölgerð Egils Skallagrímssonar hf. ICEPRO-verðaunin fyrir góðan árangur og markvissa stefnu á sviði rafrænna viðskipta. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin, svonefndan EDI-bikar, á aðalfundi ICEPRO.

 

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Ölgerðin hafi lagt mikinn metnað í upplýsingatæknimál og rafræn viðskipti þar sem viðurkenndir staðlar og samræmdar viðmiðanir eru lagðar til grundvallar. Ölgerðin innleiddi nýverið ebXML samskipti vegna viðskipta við Vöruhótelið ehf. sem tók við öllu birgðahaldi fyrir Ölgerðina vorið 2003 og hefur síðan afgreitt yfir 10 milljón pakkningar. Er það álit dómnefndar að hér sé stigið framfaraspor sem vakið hefur mikla athygli og setji mark sitt á þróun og framfarir á sviði rafrænna viðskipta á Íslandi. Ásgeir Jónsson, vörustjóri Ölgerðarinnar, stjórnaði verkefninu og hugbúnaðarfyrirtækið Hugur annaðist forritunarvinnu.

 

Þetta er í 8. skipti sem EDI-bikarinn er afhentur fyrirtæki eða stofnun sem þykir skara fram úr í rafrænum viðskiptum. Eftirtaldir aðilar hafa hlotið verðlaunin: Eimskipafélag Íslands hf. 2003, Mjólkursamsalan í Reykjavík 2002, Tryggingastofnun Ríkisins 2001, Olíufélagið ESSO 2000, Eimskipafélag Íslands 1999, BÚR 1998 og embætti ríkistollstjóra árið 1997.