Nýtum tækifærin

Undanfarin ár hafa Íslendingar verið að ná glæstum árangri í efnalegu tilliti, segir Ingimundur Sigurpálsson, formaður SA, m.a. í áramótaviðtali við Morgunblaðið. Hann segir vonir standa til að framhald verði á þessari þróun, en til að svo megi verða þurfi að halda vel um efnahagsstjórnina. Ingimundur fjallar um leiðir til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar sem ekki síst séu í því fólgnar að skapa skilyrði til aukinnar hagræðingar, og nefnir m.a. aukið viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur í því sambandi með tilheyrandi verulegri lækkun á matvælaverði til neytenda. „Ekkert eitt atriði annað er nú líklegra til þess að stuðla að bættum lífskjörum hér á landi,“ segir Ingimundur. Viðtalið fylgir í heild hér á eftir:

 

Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir að mikill árangur hafi náðst í efnahagsmálum og ítrekar mikilvægi þess að tryggja að svo verði áfram.

 

Glæsilegur árangur

„Undanfarin ár hafa Íslendingar náð glæsilegum árangri í efnalegu tilliti. Hagvöxtur hefur verið mikill, atvinnuleysi mælist vart og kaupmáttur hefur aukist verulega; hlutfallslega mest hjá þeim, sem lægst hafa launin, svo sem að var stefnt. Vissulega standa vonir til þess, að framhald verði á þessari þróun, en til þess að svo megi verða þarf að halda vel um efnahagsstjórnina. Niðurstaða viðræðna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um framhald kjarasamninga í síðasta mánuði leggur tvímælalaust grunn að árangursríkri efnahagsstjórn, en aðkoma ríkisstjórnarinnar að því máli skipti þar jafnframt miklu. Það er mat Samtaka atvinnulífsins, að kjarasamningar þeir, sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði árið 2004, muni halda gildi sínu til ársloka 2007, svo framarlega sem ekki verður grafið undan þeirri launastefnu, sem þeir mörkuðu. Fjögurra ára stöðugleiki á vinnumarkaði er mikils virði, jafnt fyrir atvinnustarfsemina í landinu sem landsmenn alla.“

 

Yfirboð opinberra aðila

„Blikur eru þó á lofti. Nýleg könnun Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins gefur til kynna, að stór hluti þjóðarinnar hafi litlar áhyggjur af mikilli verðbólgu. Ýmsir opinberir aðilar hafa haft tilhneigingu til þess að semja um meiri launahækkanir en svigrúm var talið fyrir á almennum vinnumarkaði. Slíku er ekki ítrekað unnt að una, enda er reynslan ólygnust um, að það fær ekki staðist til lengdar. Í fyrirtækjum landsins eru sköpuð þau verðmæti, sem hið opinbera skattleggur. Svigrúm til launabreytinga verður því að skilgreina í samkeppnisgreinum atvinnulífsins og verða kjarasamningar opinberra aðila að taka mið af þeirri þróun, ef hald á að vera í. Þótt tiltölulega skammt sé um liðið síðan Íslendingar glímdu við þriggja stafa verðbólgutölur, virðist mörgum hafa gleymst, að það voru miklar launahækkanir, sem öðru fremur kyntu undir verðbólgu á Íslandi á seinni helmingi síðustu aldar. Er skemmst að minnast vítanna, sem varast þarf frá níunda áratugnum, þegar laun hækkuðu um 1.400 prósent á sama tíma og kaupmáttur lækkaði um fjögur prósent. Stóra verkefnið í hagstjórninni næstu misserin er því að missa ekki tökin á verðbólguþróuninni. Aðhald í útgjöldum hjá hinu opinbera skiptir þar lykilmáli, ekki síst þegar kjaraþróun á opinberum vettvangi er höfð í huga.“

 

Leiðir til lífskjarabóta

„Íslensk fjármálafyrirtæki hafa sýnt með afgerandi hætti, að þau eiga fullt erindi á alþjóðamarkað, auk þess sem þekking þeirra og umsvif hafa nýst annarri atvinnustarfsemi og skapað henni tækifæri. Verkefni það, sem stjórnvöld hafa hleypt af stokkum um að efla Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð, er því afar áhugavert. Annað áhugavert verkefni stjórnvalda, sem ég vil nefna, lýtur að aukinni hagræðingu og gengur undir heitinu „einfaldara Ísland“. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á það, að víða liggi sóknarfæri í aukinni hagræðingu á sviði eftirlits og reglubyrði.

 

Almennt séð eru leiðir til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar ekki síst í því fólgnar að skapa skilyrði til aukinnar hagræðingar. Þar liggur beint við að nefna framleiðslukerfi landbúnaðar, þar sem brýnt er að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur og stuðla þannig að aukinni fjölbreytni í vöruframboði, vaxandi samkeppni og markvissu aðhaldi markaðarins. Á þann hátt mætti stuðla að verulegri lækkun á matvælaverði til neytenda. Ekkert eitt atriði annað er nú líklegra til þess að stuðla að bættum lífskjörum hér á landi. Nýlegar yfirlýsingar stjórnmálamanna og hagsmunaaðila í landbúnaði gefa tilefni til þess að ætla, að nú hilli undir breytingar á þessu sviði, og er mikilvægt, að þeim verði fylgt vel eftir. Rétt er að hafa í huga, að íslenskur iðnaður gekk í gegnum krefjandi aðlögun að nýjum rekstrarskilyrðum á sínum tíma vegna aðildar Íslands að EFTA. Vissulega hafði það verulegar breytingar í för með sér á vettvangi iðnaðarins, en almennt eru menn sammála um, að þær breytingar hafi verið iðnaðinum nauðsynlegar og greininni til hagsbóta til lengri tíma litið. Sama á án efa við um landbúnaðinn nú.

 

Þá vil ég nefna hagræðingarverkefni, sem lúta að aukinni samþættingu lífeyrissjóða og almannatrygginga, greiðari leið erlends starfsfólks inn á íslenskan vinnumarkað, áframhaldandi baráttu fyrir samkeppnishæfu skattaumhverfi, skilvirkara umhverfi fyrir fjárfestingar í nýsköpun, bættu aðgengi ófaglærðra að viðurkenndum námsleiðum og aukinni áherslu á almenna menntun. Allt eru þetta atriði, sem leggja þarf áherslu á, ef fylgja á eftir sambærilegum árangri og undanfarin ár.

 

Íslendingar hafa borið gæfu til þess að mæta vaxandi alþjóðlegri samkeppni með opnum hug og grípa nýtanleg tækifæri í stað þess að fylgja einangrunar- og verndarstefnu eins og tilhneiging virðist vera til að gera víða í Evrópu. Samkeppnin er komin til að vera. Við hljótum að taka þátt í keppninni með þann einbeitta ásetning að standa okkur - aðrir kostir eru ekki í stöðunni. Það er okkar að nýta tækifærin og sækja enn fram á meðal ríkja í fremstu röð.

 

Þegar spurt er, hvað staðið hafi sérstaklega upp úr á árinu, þá er nærtækast að ég líti mér næst. Í mínum huga stendur tvímælalaust upp úr að eignast tvö barnabörn með tveggja daga millibili á miðju sumri. Lífið er jú vissulega öllum efnahagsstærðum æðra!“