Nýtt skilakerfi raftækja- og rafeindatækjaúrgangs

Framleiðendur og innflytjendur raftækja og rafeindatækja bera ábyrgð á og greiða fyrir söfnun og förgun úrsérgenginna raftækja og rafeindatækja eftir að ný tilskipun Evrópusambandsins um raftækja- og rafeindatækjaúrgang tekur gildi á næsta ári. Tilskipunin var kynnt á upplýsingafundi í Húsi atvinnulífsins en Samtök atvinnulífsins, Félag íslenskra stórkaupmanna, Samtök iðnaðarins og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu boðuðu til fundarins.

 

Aðild að skilakerfi nauðsynleg  

Nefnd sem undirbjó lagasetningu vegna innleiðingar tilskipunarinnar hefur nú skilað tillögum sínum til umhverfisráðherra í formi frumvarps til laga. Kristín Linda Árnadóttir, formaður nefndarinnar og fulltrúi umhverfisráðherra, kynnti tilllögur nefndarinnar. Þær felast m.a. í því að framleiðendur og innflytjendur eigi aðild að skilakerfi sem tekur að sér ábyrgð þeirra á úrganginum. Í kynningu sinni fjallaði Kristín Linda meðal annars um helstu skyldur sem lagðar eru á herðar framleiðenda og innflytjenda samkvæmt nýju tilskipuninni, en þeim ber að safna, meðhöndla og endurnýta raf- og rafeindatækjaúrgang og aðildarríkjum er gert að setja lög sem tryggja að framleiðendur og innflytjendur setji upp kerfi til meðhöndlunar á raf- og rafeindatækjaúrgangi og greiði fyrir hana. Undan því verður ekki komist en markmiðið er að minnka kostnað og umhverfisáhrif vegna meðhöndlunar sérgreinds úrgangs.

 

 

Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra muni leggja frumvarp fram fyrir áramót og að framleiðendur og innflytjendur þurfi að skrá sig inn í skilakerfið fyrir 1. maí 2008. Stefnt er að því að skilakerfið verði tekið til starfa ekki síðar en 1. október 2008.

 

Ábyrgð til framleiðenda og innflytjenda

Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, ræddi í erindi sínu um tilgang tilskipunarinnar. Samkvæmt henni flyst ábyrgð á úrgangi raftækja- og rafeindatækja af sveitarfélögum til framleiðenda og innflytjenda. Kostnaður flyst að sama skapi af skattgreiðendum á neytendur. Sveitarfélögum verður hins vegar skylt að taka á móti úrgangi frá heimilum á söfnunarstöðvum án endurgjalds og geta einnig tekið á móti úrgangi frá atvinnurekstri en mega þá innheimta gjald vegna móttöku og geymslu. Skipuð hefur verið sérstök stýrinefnd sem í eiga sæti fulltrúar FÍS, SA, SI og SVÞ auk fulltrúa umhverfisráðherra. Hlutverk stýrinefndarinnar er að fylgjast með skilakerfinu og athuga hvort aðilar standi við skyldur sínar. 

 

 

Fyrirmynd nefndarinnar er sótt til Danmerkur og Noregs. Við mótun tillagna nefndarinnar sem nálgast má hér að neðan var haft að leiðarljósi að engir framleiðendur og innflytjendur sleppi við þátttöku í skilakerfinu, fyrirtæki hafi svigrúm og opinbert eftirlit verði í lágmarki. Ennfremur að framkvæmd við skilakerfið yrði sveigjanleg, að verslanir yrðu ekki skyldaðar til að taka á móti úrsérgengnum tækjum og að ekki yrði um uppsöfnun á fjármunum að ræða í skilakerfinu heldur gegnumstreymi.

 

Pétur birti í glærum sínum yfirlit yfir flokkun raftækja og rafeindatækja sem tilskipunin nær til og rakti þær skyldur sem gerðar eru til framleiðenda og innflytjenda. Þeim ber m.a. að merkja tæki sem undir lögin falla með sorptunnu sem búið er að setja bannmerki yfir líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

 

 

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri FÍS, stýrði fundi en kröftugar umræður spunnust um efnið að aflokinni kynningu og fjölmenntu fulltrúar fyrirtækja sem málið varðar. Hafi fyrirtæki fyrirspurnir varðandi efni tilskipunarinnar eða innleiðingu hennar eru þau hvött til að leita til þeirra samtaka sem stóðu að fundinum og þau eru aðilar að. Hér að neðan má nálgast það efni sem lagt var fram á fundinum.

 

 

Sjá nánar:

 

Glærur Kristínar Lindu Árnadóttur

 

Glærur Péturs Reimarssonar

 

Tillaga nefndar um raf- og rafeindatækjaúrgang – frumvarp til laga