Nýtt fyrirkomulag áfallatrygginga

„SA og ASÍ hafa á undanförnum mánuðum rætt ítarlega um nýtt fyrirkomulag áfallatrygginga en það hugtak tekur til trygginga vegna veikinda, slysa og örorku. Hvatinn að þessum umræðum er sívaxandi fjöldi öryrkja og alltof há örorkutíðni sem kemur fram í hækkandi kostnaði samfélagsins og brotthvarfs af vinnumarkaði. Aukinn kostnaður samfélagsins hefur m.a. komið niður á lífeyrissjóðunum sem hafa þurft hærri iðgjöld til þess að rísa undir auknum kostnaði vegna örorku. Núverandi fyrirkomulag áfallatrygginga byggir á tiltölulega löngum veikindarétti hjá vinnuveitanda, síðan tekur við bótatímabil hjá sjúkrasjóði verkalýðsfélags og að síðustu örorkukerfið þar sem lífeyrissjóður og almannatryggingar koma að málum.  Alltof oft reynist núverandi fyrirkomulag vera einstefnugata til örorku og fólk sem fer inn á þessa braut á sér í alltof sjaldan afturkvæmt inn á vinnumarkaðinn.

 

Vinnugeta skilgreind í stað örorku

Markmiðið með uppstokkun áfallatrygginganna er að búa til samfellt kerfi sem hefur möguleika til þess að fækka þeim sem verða öryrkjar og fjölga þeim sem eiga afturkvæmt á vinnumarkaðinn eftir veikindi eða slys. Árangur á þessu sviði getur, ef vel tekst til, sparað atvinnulífinu og samfélaginu öllu verulega fjármuni. Meginatriði til þess að ná árangri er að grípa nægilega snemma inn í mál starfsmannsins sem verður fyrir áfallinu, vinna með honum og finna viðeigandi úrræði eða endurhæfingu Vinnugeta verður skilgreind frekar en örorka og með því sköpuð hvatning til þess að hefja störf að nýju. Þetta þarf að gera með því að bæta þjónustu við starfsmanninn og fjölga úrræðum. Til lengri tíma mun árangurinn nýtast til þess að lækka kostnað og fjármagna útgjöldin.

 

Nýr sjóður stærsta stoðin

Meginhugsunin í hinu nýja fyrirkomulagi er að nýta betur fjármuni og eins þá aðila sem að þessum málum hafa komið. Fyrirtækin spara með því að veikindaréttur hjá þeim styttist og verður tveir mánuðir á föstum launum. Þessi sparnaður verður nýttur með því að auka framlög til sjúkrasjóða verkalýðsfélaganna sem fá nýtt hlutverk í framkvæmd og skipulagningu þjónustunnar við þá sem verða fyrir áföllum og greiða auk þess hluta af framfærslugreiðslum. Stærsta stoðin í hinu nýja fyrirkomulagi verður nýr sjóður, Áfallatryggingasjóður, sem sér um grunn framfærslugreiðslur, stýrir þjónustunni og greiðir kostnaðinn við hana. Áfallatryggingasjóður verður undir sameiginlegri stjórn vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar með sambærilegum hætti og lífeyrissjóðirnir hafa verið. Framlög til Áfallatryggingasjóðs eru fjármögnuð með iðgjaldi sem fæst með því að lækka iðgjald í lífeyrissjóði og ennfremur er miðað við að hluti af tryggingagjaldi renni til sjóðsins í samræmi við lægri kostnað almannatrygginga af örorku og veikindum. Sá sem fyrir áfalli verður mun á 5 ára tímabili njóta framfærslugreiðslna og þjónustu Áfallatryggingasjóðs og sjúkrasjóða en sé viðkomandi varanlega utan vinnumarkaðar að því tímabili loknu taka almannatryggingar og lífeyrissjóðir við eins og nú. Þeir útreikningar sem byggt er á við gerð hins nýja fyrirkomulags sýna að lækkun á örorkutíðni i kringum 30% þýðir að það verður kostnaðarminna fyrir atvinnulífið og samfélagið en núverandi kerfi.

 

Framfærslugreiðslur í hinu nýja fyrirkomulagi verða heldur hærri en nú en miklu munar að við að skilgreina vinnugetu í stað örorku er ekki gert ráð fyrir sérstökum tekjutengingum á greiðslum. Þess í stað er staða og vinnugeta viðkomandi endurmetin reglulega og vonandi ná sem flestir fullri vinnugetu sem fyrst. Í stuttu máli má segja að hið nýja fyrirkomulag verði örlátara en nú en jafnframt strangara og miklu meira hvetjandi fyrir einstaklinginn.

 

Samvinna atvinnulífs og verkalýðshreyfingar

Hið nýja fyrirkomulag áfallatrygginga er stórmál. Það er líka afar merkileg samfélagsleg tilraun þar sem fyrirtækin og verkalýðshreyfingin taka mikla ábyrgð á þessum málaflokki og eiga allt undir því að árangur náist. Segja má að kostnaðurinn af núverandi fyrirkomulagi falli beint á fyrirtækin og starfsfólk þeirra í gegnum beinar greiðslur, iðgjöld til lífeyrissjóða og tryggingagjald. Reikningurinn fyrir fjölgun öryrkja lendir á fyrirtækjum og starfsfólki þeirra. Því er því eðlilegt að Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin snúi bökum saman og leiti samstöðu um nýtt og betra fyrirkomulag og taki á sig ábyrgð á framfærslugreiðslunum og þjónustunni við þá sem verða fyrir áföllum. Ef vel tekst til verður sú leið sem hér er farin til fyrirmyndar við uppbyggingu velferðarkerfa í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Íslenska leiðin gæti í senn reynst hagstæðari fyrir þá sem verða fyrir áfalli, fært þeim betri þjónustu og líka leitt til minni kostnaðar fyrir samfélagið og atvinnulífið. Viðræðum um hið nýja fyrirkomulag er ekki lokið en stefnt er það því að það geti orðið hluti af nýjum kjarasamningum en eins og kunnugt er þá renna nánast allir samingar á almennum markaði út um komandi áramót.”

 

Vilhjálmur Egilsson