Nýta megi endurnýtanlegar orkulindir

Pétur Reimarsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Samtökum atvinnulífsins, tók þátt í pallborðsumræðum á málþingi umhverfisráðuneytisins sem haldið var í tilefni af gildistöku Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í máli sínu benti Pétur m.a. á hvernig Íslendingar hafa nánast hafa útrýmt jarðefnanotkun við orkuframleiðslu. Hér væru því ekki forsendur fyrir uppsetningu kerfis viðskipta með losunarkvóta líkt og komið hefur verið á fót innan ESB. Lagði Pétur áherslu á að við værum í öfundsverðri stöðu að þessu leyti.

 

Fleiri ríki

Aðspurður um hvort SA hefðu mótað stefnu á þessu sviði sagðist Pétur telja að samtökin myndu styðja almennar aðgerðir sem ætlað væri að draga úr heildarlosun. Hann sagði hins vegar afar mikilvægt að skuldbindingar um minnkun losunar næðu til fleiri ríkja en nú er, þar á meðal til Bandaríkjanna og landa á borð við Indland og Kína. Þá væri afar mikilvægt að Íslendingar og aðrir fengju áfram að nýta endurnýtanlegar orkulindir. Það þjónaði ekki hagsmunum heimsbyggðarinnar að takmarka heimildir til þess.