Nýr staðall um launajafnrétti kynntur

Nýr staðall um jafnlaunakerfi verður kynntur á opnum morgunverðarfundi á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 19. júní kl. 8-10. Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og velferðarráðuneytið hafa frá því í árslok 2008 unnið að gerð staðalsins. Um er að ræða brautryðjendastarf í jafnréttismálum sem á sér ekki fordæmi en fyrirmyndir voru sóttar í alþjóðlega staðla um t.d. gæða- og umhverfisstjórnun.

 

Eins og aðrir staðlar verður hann valkvæður, þ.e. fyrirtækjum verður í sjálfsvald sett hvort þau innleiða hann. Með notkun staðalsins er fyrirtækjum auðveldað að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja og geta þau fengið vottun þar um. Ávinningur fyrirtækis af notkun jafnlaunastaðalsins getur m.a. falist í bættri ímynd á grundvelli faglegrar mannauðsstjórnunar og áherslna á samfélagsábyrgð og góða stjórnarhætti.

 

Gerð staðalsins er í samræmi við bókun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og bráðabirgðaákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Verkið hefur verið unnið á vettvangi Staðlaráðs Íslands með aðkomu fjölmargra aðila.

 

Frumvarp um jafnlaunastaðal er tilbúið til kynningar og fer nú í hefðbundið umsagnarferli sem lýkur 20. september næstkomandi. Öllum sem áhuga hafa er boðið að kynna sér staðalinn og senda inn umsagnir eða athugasemdir. Frumvarpið má nálgast hjá Staðlaráði gegn gjaldi, bæði á pappír og á rafrænu formi.

 

Kynningarfundurinn um jafnlaunastaðalinn þann 19. júní er öllum opinn og er ekkert þátttökugjald. Dagskrá fundarins er hér að neðan:

 

Ávörp flytja:

 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

 

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ

 

Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri SA

 

Staðall um launajafnrétti:

 

Öguð vinnubrögð við stjórnun launamála: Hildur Jónsdóttir formaður tækninefndar um jafnlaunastaðal

 

Flokkun starfa: Birgir Björn Sigurjónsson hagfræðingur

 

Launagreiningar: Anna Borgþórsdóttir Olsen hagfræðingur

 

Íslenskur og evrópskur réttur á sviði launajafnréttis: Elsa S. Þorkelsdóttir lögfræðingur

 

Umsagnarferlið og úrvinnsla: Guðrún Rögnvaldardóttir framkvæmdastjóri Staðlaráðs

 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra

 

Fyrirspurnir og umræður