Ný tækifæri til atvinnuþátttöku (1)

Finna þarf form á frjálsum samningum á milli fyrirtækja og þeirra aðila sem fara með málefni þeirra sem búa við skerta starfsorku. Sníða þarf ráðningarsamninga að þörfum þessa hóps með sveigjanlegum vinnutíma og afkastakröfum og láta kostnað vegna greiðslu launa í veikindum falla á sameiginlegan sjóð. Þetta sagði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, á ráðstefnu um ný tækifæri til atvinnuþátttöku. Hannes sagði íslenskan vinnumarkað sveigjanlegan sem kæmi fólki með veika stöðu vel. Forðast ætti að grípa til íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana til að tryggja aukna atvinnuþátttöku öryrkja sem óhjákvæmilega yrðu umdeildar og gætu skapað hættu á útbreiddri sniðgöngu meðal fyrirtækja.

 

Lítil atvinnuþátttaka öryrkja á Íslandi

Í erindi sínu benti Hannes á að atvinnuþátttaka öryrkja á Íslandi er lítil. Um síðustu aldamót var atvinnuþátttaka öryrkja til að mynda um 60% í Noregi, um 50% á öðrum Norðurlöndum og 44% að meðaltali í löndum OECD. Atvinnuþátttaka öryrkja á Íslandi var hins vegar aðeins 27% árið 2004. Hannes sagði skýringar á lágri atvinnuþátttöku öryrkja á Íslandi liggja líklega í tekjutengingu lífeyrisgreiðslna og rétti til greiðslu launa í veikindum hjá atvinnurekendum. Í nýju kerfi þurfi að huga að því að greiðslur launa í veikindum þeirra sem búi við skerta starfsorku falli ekki á atvinnurekendur til að liðka fyrir ráðningu þeirra.

 

Íslenski vinnumarkaðurinn býr við sveigjanlegar reglur varðandi ráðningar og uppsagnir. Hannes sagði það jákvætt fyrir þá sem hafi veika stöðu á vinnumarkaði þar sem íslenskir atvinnurekendur séu tiltölulega óhræddir við að ráða fólk til vinnu en víða í Evrópu eru ráðningar þyngri í vöfum og vinnumarkaðurinn því ekki eins sveigjanlegur og á Íslandi.

 

Öryrkjabandalag Íslands og Félagsmálaráðuneytið, í samstarfi við ASÍ og SA, efndu til ráðstefnunnar.

 

Kynning Hannesar G. Sigurðssonar (PPT-skjal)