Ný greinargerð SA um horfur í efnahagsmálum

Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman greinargerð um horfur í efnahagsmálum. Þar kemur m.a. fram að líkur séu á að hagvöxtur á árinu 2007 mælist yfir 5% en ekki innan við 1% eins og fjármálaráðuneytið heldur fram. Tölur um þróun vinnumarkaðar benda jafnframt til þess að framleiðniaukning á árinu 2006 hafi verið umtalsverð og hagvöxtur hafi verið allt að 6%. Í greinargerðinni kemur fram að mikil hækkun á fasteignaverði undanfarin ár hafi gert það ómögulegt að ná 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans en stefna bankans hafi valdið skaða. Vaxtastefna Seðlabankans leiði til gengissveiflna á krónunni og líklegt sé að hún muni falla með hvelli á einhverjum tímapunkti. Í greinargerðinni er farið yfir horfur á vinnumarkaði og breyttar aðstæður í íslensku efnahagslífi. Þar segir m.a. að þörf sé á nýjum viðhorfum í stjórn efnahags- og atvinnumála í ljósi þess að fjármálageirinn sé orðinn stærsti útflutningsatvinnuvegurinn. Tekjumyndun og sveiflur í efnahagslífinu muni í framtíðinni verða með allt öðrum hætti en áður hefur þekkst.

 

Greinargerðina má nálgast hér að neðan

en helstu punktar hennar eru eftirfarandi:

 

Verðbólguhorfur á næstunni eru ekki slæmar þótt vísitala neysluverðs hafi hækkað um 4,2% frá áramótum. Hækkanir á fasteignaverði virðast vera að réna en þær hafa leitt verðbólguþróunina á þessu ári þar sem reiknuð húsaleiga í vísitölunni hefur hækkað um 16,1% á árinu.

 

Laun í landinu hækkuðu að meðaltali um 10% á árinu 2006, skv. launavísitölu Hagstofunnar, og mun hækkunin að líkindum verða nálægt 8% á þessu ári. Þessar miklu launahækkanir hafa eðlilega mikil áhrif á verðlagsþróun, en þau eru þó að stórum hluta komin fram. Launakostnaður íslenskra fyrirtækja er nú meðal þess hæsta sem þekkist í Evrópu.

 

Verðlag ætti að geta verið tiltölulega stöðugt á næsta og þarnæsta ári ef vel er á spilum haldið. Ef kjarasamningar setja ekki strik í reikninginn má reikna með að verðhækkanir án breytinga fasteignaverðs verði í kringum 2,5% áfram eins og reyndin hefur verið síðustu fjögur árin.

 

Seðlabankinn er með vaxtastefnu sinni að safna í enn eina gengissveifluna þrátt fyrir að enginn ágreiningur sé um að gengi krónunnar sé langt yfir jafnvægisgildi sínu. Gengi krónunnar mun líklega fara hækkandi á næstunni með tilheyrandi kostnaði fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni en falla síðan með hvelli á einhverjum tímapunkti.

 

Íslenska hagkerfið verður fyrir sífellt meiri áhifum af þróun á fjármálamörkuðum, jafnt innlendum sem erlendum. Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti námu tæpum 23 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins og er ekki ótrúlegt að þessi fjárhæð nálgist 30 milljarða á árinu öllu. Skattlagðar fjármagnstekjur gætu numið yfir 40% af launatekjum. Útflutningstekjur landsmanna af fjármagni eru orðnar ámóta háar skv. opinberum tölum og vegna vanmats á söluhagnaði eigna trúlega talsvert hærri en tekjur vegna útflutnings vöru og þjónustu.

 

Efnahagslífið á Íslandi er gjörbreytt frá því sem áður var. Fjármálageirinn, að fjárfestingarstarfsemi meðtalinni, hefur þanist út og er orðin stærsti útflutningsatvinnuvegurinn. Þetta þýðir að tekjumyndun og sveiflur í efnahagslífinu munu í framtíðinni verða með allt öðrum hætti en áður hefur þekkst. Þróun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum mun hafa afgerandi áhrif á Íslandi og það kallar á ný viðhorf í stjórn efnahags- og atvinnumála.

 

Vinnumarkaðurinn stækkaði um 5,1% á árinu 2006 og 45% af fjölguninni var í hópi stjórnenda og sérfræðinga. Þetta bendir til þess að hagvöxtur á árinu 2006 hafi ekki eingungis verið í takt við fjölgun á vinnumarkaði heldur ennfremur að framleiðniaukning í hagkerfinu hafi verið umfram meðaltal og að hagvöxtur hafi verið ennþá meiri. Því kæmi ekki á óvart að þegar frá líður finni Hagstofan það út að hagvöxtur á árinu 2006 hafi verið yfir 6%. Það sama á við vegna yfirstandandi árs. Vinnumarkaðurinn virðist vera að stækka um a.m.k. 4,5% milli ára og uppgangur fjármálageirans hefur haldið áfram sem hefur í raun mótað framleiðniþróunina á öllum vinnumarkaðnum. Því er mun líklegra að hagvöxtur á árinu 2007 mælist yfir 5% þegar upp er staðið frekar en að hann verði innan við 1% eins og fjármálaráðuneytið hefur sett fram.  

 

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram þá hugmynd að Seðlabankinn líti framhjá breytingum á fasteignaverði í verðbólgumarkmiði sínu. Mjög mismunandi er hvort og hvernig aðrar þjóðir taka tillit til fasteignaverðs eða verðs á eigin húsnæði í vísitölu neysluverðs. Í nýútkominni bók Alans Greenspan, fyrrverandi formanns bankastjórnar bandaríska seðlabankans, kemur m.a. fram að markmið bandaríska seðlabankans eigi að miðast við verðbreytingar á vörum og þjónustu en ekki eigi að líta til eignaverðs. Þá kemst hann að þeirri niðurstöðu að áhrif bandaríska seðlabankans á langtímavexti á fjárskuldbindingum hafi dvínað og á sú niðurstaða brýnt erindi í umræður um virkni vaxtastefnunnar hér á landi.

 

Seðlabanki Íslands hefur staðið á því föstum fótum að halda verðbreytingum á fasteignum eða eigin húsnæði inni í viðmiðun fyrir 2,5% verðbólgumarkmið sitt. Til þess að gefa mynd af því hvaða markmiðum bankinn telur sig þurfa að ná má benda á að verðhækkanir á vöru og þjónustu, að undanskildum fasteignaverðsliðnum, hefðu engar mátt vera, eða 0%, frá ársbyrjun 2004 fram til þessa dags til þess að skapa rými fyrir 78,5% verðhækkun á fasteignum á þessu tímabili. Með fullri virðingu fyrir Seðlabanka Íslands og vaxtatæki hans verður að segjast að 0% hækkun á verði á vöru og þjónustu á fjórum árum er bæði óraunhæf og óæskileg vegna þeirrar djúpu kreppu sem það myndi kalla yfir land og þjóð. 

 

Samtök atvinnulífsins hafa bent á það hversu vanmáttugt tæki vaxtastefna Seðlabankans er til þess að vinna gegn verðbólgu. Ótæpileg beiting þess, þar sem stýrivextir eru nú13,3% (14,25% m.v. eldri viðmiðun), hefur í för með sér hærra gengi krónunnar en samsvarar jafnvægi í þjóðarbúskapnum og skaðlegar gengissveiflur en engin langtímaáhrif á verðbreytingar á vöru og þjónustu, sem hafa verið nálægt 2,5% að meðaltali á ári síðustu tæpu fjögur árin. Því er þörf á breytingum á þeim aðferðum sem bankinn notar og markmiði hans. 

 

Greinargerðina má nálgast hér:

 

Greinargerð SA um horfur í efnahagsmálum - október 2007