Mæla á kostnað fyrirtækja af lögum og reglum

Á fundi sínum þriðjudaginn 7. desember sl. beindu fjármála- og viðskiptaráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins þeim eindregnu tilmælum til framkvæmdastjórnarinnar að hún kynnti sem fyrst nýja aðferðafræði sem ráðherraráðið hefur beðið um að verði þróuð til að mæla kostnað fyrirtækja af einstökum lögum og reglum sem frá ESB starfa.

 

Ríkari vilji í nýrri framkvæmdastjórn

Hinu nýja kerfi er ætlað að auðvelda skipulagða baráttu gegn reglubyrði innan ESB, í þeim tilgangi að draga úr þeim kostnaði við rekstur fyrirtækja sem af reglubyrðinni hlýst. Hollendingar fara með formennsku í ráðherraráði ESB seinni hluta ársins 2005, og í samtali við Financial Times hefur Gerrit Zalm, fjármálaráðherra Hollands, lýst vilja til að ESB taki sér til fyrirmyndar baráttuna gegn reglubyrði í Hollandi. Þar í landi fer nú fram skipulögð mæling á kostnaðaráhrifum laga og reglna fyrir atvinnulífið og er stefna stjórnvalda að ná fram minnkun reglubyrði sem samsvari fjórðungi þess kostnaðar sem fyrirtækin bera vegna hennar.  Í viðtalinu fið Financial Times segir Zalm m.a. að ýmsar fyrri tilraunir ESB til að minnka reglubyrði fyrirtækja hafi litlu skilað. Núna sé hins vegar athyglinni beint að kostnaði fremur en fjölda blaðsíðna af lögum og reglum, auk þess sem hin nýja framkvæmdastjórn ESB undir forsæti Manuels Barroso sé mun jákvæðari gagnvart þessu markmiði en forverar hennar hafi verið. Stefnt er að því að hið framkvæmdastjórn ESB geti hafið slíka skipulagða kostnaðarmælingu á ESB-gerðum í júní 2005.

 

Skýrslur SA

Í þessu samhengi má minna á að Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað kvartað undan því að þótt lög um opinberar eftirlitsreglur séu um margt til fyrirmyndar þá hefur ákvæðum þeirra um kostnaðarmat af nýjum reglum um eftirlit, fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild, ekki verið framfylgt. Hollenska frumkvæðið gengur raunar mun lengra heldur umrætt ákvæði, þ.e. ekki er einblínt á kostnað af nýjum reglum um eftirlit, heldur er verið að meta kostnað af núverandi reglubyrði yfirleitt fyrir atvinnulífið þar í landi. Frumkvæði sem stefnan er nú að ESB taki sér til fyrirmyndar og sem vonandi verður einnig skoðað vandlega hér á landi. Fjallað er um reglubyrði og opinbert eftirlit í skýrslunni Bætum lífskjörin! og nánar um eftirlitsstarfsemina í skýrslunni Eftirlit með atvinnustarfsemi.

 

Sjá frásögn af fundi ráðherraráðs ESB frá 7. desember 2004 (bls. 14).

 

Sjá grein á vef Financial Times.