Loftslagsráðstefnan á Balí: Atvinnulífið er tilbúið

Fulltrúar atvinnulífsins fluttu í dag ávörp á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem staðið hefur á Balí síðustu tvær vikur. Daniel Cloquet, forstöðumaður iðnaðarmála hjá Evrópusamtökum atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE) talaði í nafni 39 samtaka atvinnulífsins í 33 Evrópuríkjum. SA og SI eiga aðild að BUSINESSEUROPE og hefur Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, tekið þátt í lofstlagsráðstefnunni fyrir hönd SA.

 

Í máli Cloquet kom fram að með ráðstefnunni á Bali gæfist ríkjum heims mikilvægt tækifæri til að taka næstu skref til að skapa heildstætt alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Mikilvægt sé að atvinnulífið fái skýr skilaboð og að samkomulagið verði auk þess gegnsætt, ákveðið og setji ramma um þær leikreglur sem gilda eiga eftir 2012. 

 

Markaðslausnum verði beitt

Fram kom að samkomulagið verði að byggja á langtímamarkmiðum og markaðslausnum. Það sé nauðsynlegt til að atvinnulífið geti ráðist í nauðsynlegar rannsóknir, nýsköpun og fjárfestingar í tækni sem geti dregið úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, bætt orkunýtingu, tryggt samkeppnishæfni atvinnulífsins og verndað umhverfið.

 

Fulltrúar atvinnulífsins í Evrópu telja að stefnumótun í loftslagsmálum verði að vera margþætt, sveigjanleg og raunhæf. Hún verði m.a. að taka mið af aðstæðum einstakra ríkja og þörfum þróunarríkja. Stefnumörkunin verði að byggjast á markaðslausnum og fela í sér samdrátt í útstreymi, aðlögun að loftslagsbreytingum, tækniþróun og fjármögnun. Atvinnulífið sé hluti af lausn vandans sem geti ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar til að þróa tækni, vörur og þá þjónustu sem samfélagið þarfnast.


Umfang rannsókna og nýsköpunar verði aukið

Atvinnulífið telur að samkomulag sem miðar að því að halda hlýnun loftslags innan við 2°C verði að byggja á hagkvæmum lausnum. Hvetja verði þróunarríki til að taka þátt í verndun loftslagsins og setja sér skýr markmið. Samkomulagið verður auk þess að fela í sér markmið til lengri tíma og sveigjanlega áfanga sem ekki eru bindandi en unnt er að nýta til endurskoðunar og til að meta árangur. Alþjóðleg geiranálgun getur verið hluti af því að slík markmið náist. Mikilvægt er að auka opinberan stuðning við rannsóknir og nýsköpun, hvetja til samstarfs opinberra aðila og einkafyrirtækja og að draga úr þeim hindrunum sem koma í veg fyrir markaðslausnir á einstökum sviðum.

 

Sjónarmið alþjóðlegra fyrirtækja

Airlangga Hartato frá Viðskiptaráði Indónesíu flutt ávarp fyrir hönd þess og alþjóðlegra fyrirtækja. Hann tók meðal annars fram að fyrirtækin bæði vildu og gætu lagt mikið af mörkum til að koma auga á og hrinda í framkvæmd raunhæfum lausnum til að draga úr loftslagsbreytingum. Atvinnulífið þurfi skýrar og gegnsæjar reglur til að geta gert áætlanir til langs tíma og ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar. Það sé grunnur að því að unnt verði að taka í notkun nýja tækni í verkefnum sem tengjast aðgangi að orku, framleiðslu hennar og orkunýtingu.

 

Stjórnvöld hefji samræður við atvinnulífið

Á loftslagráðstefnunni í Balí kom skýrt fram að atvinnulíf í Evrópu og á alþjóðavettvangi væri tilbúið til samstarfs við stjórnvöld og aðra þá sem stefnumótun annast til að takast á við loftslagsbreytingar en um leið verði lögð áhersla á hagvöxt, aðgang að orku og sjálfbæra þróun. Nauðsynlegt sé að virkja fjármálamarkaði við að draga úr útstreymi.

 

Undirstrikað var að öllum skuldbindingum ríkja til lengri tíma verði skipt í áfanga og tekið verði mið af aðstæðum í einstaka ríkjum. Hvatt verði til fjárfestinga í þeim ríkjum sem verða fyrir mestum áhrifum af breytingunum og öllum lausnum í orkumálum verði haldið opnum. Ennfremur sé mikilvægt að hvetja til betri orkunýtingar og aukinnar nýtingar orku sem hvað minnstu útstreymi veldur.

 

Einstök fyrirtæki og atvinnugreinar hafa nú þegar náð miklum árangri við að draga úr útstreymi og bæta orkunýtingu með öflugri tækniþróun. Skorað er á stjórnvöld að hefja samræður við atvinnulífið til að hægt sé ná frekari árangri við að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Atvinnulífið er hluti af lausn vandans – sjónarmið þess verða ekki undanskilin í alþjóðlegu samkomulagi í loftslagsmálum eigi það að skila árangri.